Lítið örplast í vatni en finnst þó

Heilbrigðiseftirlit Umhverfi

""

Í vatnssýnum sem safnað var úr vatnsveitu Veitna í Reykjavík kom í ljós að 0,2-0,4 plastagnir fundust í hverjum lítra vatns. Eru þetta mun betri niðurstöður en birtar voru í erlendri skýrslu um örplast í neysluvatni sem var í fréttum hér á landi í september. 

Þar kom fram að 83% þeirra 159 sýna sem skýrslan byggir á, og tekin voru víðs vegar í heiminum, innihéldu að meðaltali tuttugufalt og allt að 400-falt magn plastagna miðað við það sem fannst í neysluvatni Reykvíkinga.

Örplast er heiti á plastögnum sem eru minni en 5mm að þvermáli. Örplast getur annars vegar verið framleitt örplast, sem til dæmis finnst í snyrtivörum, eða örplast sem verður til við niðurbrot, t.d. úr dekkjum, innkaupapokum eða fatnaði. Niðurstöður mælinga okkar samsvara því að 1-2 slíkar agnir finnist í 5 lítrum vatns. Tekin voru stór sýni, eða 10-150 lítrar.

Rétt að hafa fyrirvara

Þrátt fyrir að þessar niðurstöður gefi vísbendingar um ágæta stöðu þarf að taka þeim með fyrirvara. Fyrir því eru tvær ástæður; Ekki er til viðurkennd sýnatöku- og greiningaraðferð þegar kemur að rannsóknum á örplasti í neysluvatni. Til að minnka skekkju sem getur orðið vegna söfnunar, meðhöndlunar og talningar á litlum sýnum var ákveðið að taka mun stærri sýni en í erlendu rannsókninni sem nefnd er að ofan. Raunar hafa höfundar hennar bent á að sýni þeirra hafi verið lítil og hafa tilkynnt að nú standi yfir framhaldsrannsóknir sem standast eðlilegar vísindalegar kröfur. Við vitum ekki til þess að áður hafi verið skoðað hvort örplast sé að finna í neysluvatni hér á landi. Því er enginn samanburður til fyrir vatn annarsstaðar á landinu. Engar reglugerðir eru til um örplast í neysluvatni, ekki eru til viðmiðunarmörk, engin krafa er um hreinsun örplasts úr neysluvatni og ekki er til heildstætt mat á magni og uppruna plasts í umhverfinu.

Veitur vakta vatnið og vísindin

Veitur munu áfram fylgjast örplasti í neysluvatni Reykvíkinga og vísindalegri umræðu hér á landi og í útlöndum um málefnið. Hún er að þroskast eins og gagnrýni á áðurnefnda alþjóðlega rannsókn sýnir. Þá segir í vísindagrein í nýjasta tölublaði Current Opinion in Environmental Science and Health að enn séu ekki til marktæk gögn um örplast í neysluvatni eða hvaða áhrif það hefur. Sýnatökur og framsetning gagna séu ekki samræmd og endurteknar rannsóknir skorti sem dragi úr áreiðanleika gagnanna og marktækni niðurstaðna.  Mikilvægt sé þess vegna að innleiða samræmdar aðferðir við mælingar á örplasti í neysluvatni.