Lifandi hverfiskjarni, skjól og fjölbreyttari íbúðir meðal hugmynda fyrir Árbæ

Stjórnsýsla Umhverfi

""

Fyrstu hugmyndir að nýju hverfisskipulagi fyrir borgarhlutann Árbæ verða kynntar á íbúafundi í Árbæjarskóla þriðjudaginn 11. október kl. 19.30 – 21.00 og kallað verður eftir athugasemdum íbúa við þær.  Hugmyndirnar eru unnar af ráðgjafateymi arkitekta, skipulagfræðinga, verkfræðinga og fl. og byggja á fyrri hugmyndavinnu með íbúum. Stuðst verður við líkön af Árbænum, unnið af skólakrökkum úr hverfinu, til að taka skilmerkilega á móti ábendingum íbúa.

Til borgarhlutans Árbæjar heyra hverfin Ártúnsholt, Árbær, Selás og Norðlingaholt. Hugmyndir um þéttingarsvæði, hverfiskjarna, samgöngur í hverfinu, grænar áherslur og skilmála fyrir núverandi byggð eru meðal atriða í hugmyndum ráðgjafanna.  Nemendur í skólum þessara hverfa útbjuggu líkön sem notuð voru á hugmyndafundum með íbúum. Allar hugmyndir voru síðan settar í gagnagrunn sem auðveldar að draga fram óskir íbúa á yfirlitskorti.

„Þetta er síðasti hugmyndafundurinn áður en vinna við loka-tillögu að hverfisskipulagi hefst,“ segir Ævar Harðarson verkefnisstjóri Hverfisskipulags, en hugmyndir og ábendingar frá íbúum eru mikilvægar í þeirri vinnu. Ævar gerir ráð fyrir að tillaga að hverfisskipulag fyrir Árbæ verði tilbúið í byrjun næsta árs.

      Láttu okkur vita ef þú ætlar að mæta > Viðburður á Facebook.

Hugmynd um betri hverfiskjarna

Ævar segir mikilvægt að fá viðbrögð íbúa á þessu stigi í skipulagsferlinu svo hægt sé að taka mið af þeim við gerð endanlegra tillagna að hverfisskipulagi. Einkum eru það þéttingarhugmyndir t.d. við Rofabæ sem Ævar gerir ráð fyrir að skiptar skoðanir geti verið um. Aðrir þéttingareitir eru við Ártúnsholti við Rafstöðvarveg og  við Brekkuás og Seljabraut í Selási.

Hann segir að til umræðu séu hugmyndir um hverfiskjarna við Bæjarbraut, þar sem nú eru fyrir verslanir og veitingastaður. Litið sé á það sem sóknarfæri að efla þjónustu, menningu og verslun á svæðinu.

Einnig eru hugmyndir um að tengja Árbæjarsafn betur við nærliggjandi byggð og eru þær komnar úr fyrri hugmyndavinnu með íbúum og hagsmunaaðilum. 

Grænar áherslur eru í takt við tímann og birtast þær meðal annars í hugmyndum að betri hjóla- og göngustígum, ofanvatnslausnum, opnum svæðum, sem og görðum fyrir borgarbúskap, gróðurbelti til skjólmyndunar , sem og betri sorpflokkun með grenndargámum. 

Gagnagrunnur heldur utan um allar skoðanir

Á íbúafundinum geta íbúar sett athugasemdir sínar á miða og lagt miðana á líkönin. Í lok fundarins eru miðarnir skráðir í sérstakan gagnagrunn til að halda skipulega utan um skoðanir íbúaen gagnagrunnurinn sýnir jafnframt myndrænt hvernig skoðanir íbúa birtast í svokallaðri  miðasjá. Í miðasjánni er hægt að kalla fram „heita reiti“ og efnisflokka eins og samgöngur, þjónustu og grænar áherslur.

Sú hugmynd að nýta líkön til að auðvelda samtal um framtíðarsýn hverfisins byggir á erlendri fyrirmynd sem hölluð hefur verið Skapandi samráð (Planning for Real). Markmið samráðsins er að nýta reynslu íbúa af nærumhverfi þeirra og er aðferðin hönnuð þannig að allar raddir fái áheyrn. Áherslur í hverfisskipulagsvinnunni er að draga fram hvaða þjónustu vantar í hverfin og hvar íbúar telja að tækifæri hverfisins séu. Leitað er markvisst eftir því hjá íbúum hvaða breytingar þeir vilja sjá á sínu nánasta umhverfi og jafnvel eigin húsnæði.

Það eru nemendur í 6. bekkjum í Ártúnsskóla, Árbæjarskóla, Selásskóla og Norðlingaskóla sem eiga heiður að líkanasmíðinni og nutu þau leiðsagnar kennara og starfsfólks umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. 

Allir íbúar eru hvattir til að mæta á fundinn.  Sérstaklega eru foreldrar og skólabörn sem unnu að líkanasíðinni boðin velkomin. 

Nánari Upplýsingar um hverfisskipulag má sjá á vef verkefnisins www.hverfisskipulag.is.