Lestrarhátíð í Bókmenntaborg

Skóli og frístund Mannlíf

""

Þann 1. október verður fimmta Lestrarhátíð í Bókmenntaborg sett við Kaffibrennsluna á Laugavegi. Lestrarhátíð stendur að vanda út mánuðinn með fjölbreyttri og lifandi dagskrá víðsvegar um borgina. Hátíðin í ár nefnist Meira en 1000 orð og er sjónum beint að samspili orða og mynda. 

Markmið Lestrarhátíðar í Bókmenntaborg er að hvetja fólk á öllum aldri til að lesa, auka líflega umræðu um bókmenntir og tungumál og síðast en ekki síst að vekja athygli á gildi orðlistar í menningaruppeldi og daglegu lífi. Lestrarhátíð er árviss viðburður og októbermánuður því að verða þekktur sem mánuður orðlistar í Reykjavík. Fjölmargir taka þátt í hátíðinni með beinum og óbeinum hætti ár hvert og fólk nýtir tækifærið til að njóta bóklesturs og taka þátt í dagskrá sem tengist þema mánaðarins.

Borgarbúar eru hvattir til að taka þátt í hátíðinni með því að mæta á viðburði, halda sjálfir viðburði, lesa og spjalla um bókmenntir svo og að setja inn örsögur, uppáhalds tilvitnanir  eða mínútumyndir á samfélagsvefina Facebook, Twitter og Instagram með myllumerkinu #1000orð eða #lestrarhatid.

Boðið verður upp á líflega dagskrá allan mánuðinn. Í ár er Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fimm ára og verður því einnig fagnað í október.

„Við hugsum í myndum. Við orðum hugsanir.“  Sjón, 2016
Hátíðin verður sett við Laugaveg 21, Kaffibrennsluna, þar sem skáldið Elías Knörr og myndlistarkonan Elín Edda afhjúpa verk sitt, „Morgunsárið er furðufugl“. Verkið er hluti af verkefninu Orðið á götunni sem samanstendur af sjö orð- og myndlistaverkum eftir 14 höfunda sem finna má víðsvegar um Reykjavík í október. Elías flytur samnefnt ljóð.
Annað listamannapar Lestrarhátíðar, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Atli Sigþórsson (Kött Grá Pje) flytja textamiðaðan gjörning ásamt tilheyrandi hljóðum en þau eru bæði ljóðskáld sem vinna einnig með mismunandi útfærslur á textum, hvort sem það er í rappi, myndlist eða öðru.

Líf Magneudóttir nýskipaður forseti borgarstjórnar setur hátíðina.

Dagskrá hátíðarinnar 2016
„Hugmyndir kveikja orð.  Orð kveikja myndir.  Myndir verða sögur.  Sögur verða hugmyndir.“ Þorri Hringsson, 2016
Dagskrá Lestrarhátíðar í ár er lifandi og skemmtileg. Litið verður til samspils orða og mynda, myndasagna, ljóðmynda, myndljóða, myndskreyttra bóka, myndanna í orðunum og orðanna í myndunum. Dagskráin er því venju fremur fjölbreytt en hún er ætluð öllum aldurshópum.
Bókmenntaborgin Reykjavík fagnar fimm ára afmæli í ár og af því tilefni voru fjórtán orð- og myndlistarmenn fengnir til að vinna verk sem prýða veggi og skjái víðs vegar um borgina. Listamennirnir unnu saman tveir og tveir og útkoman er sjö skemmtileg og ólík verk sem sameina orðlist og myndlist.

Listamennirnir eru Alda Björk Valdimarsdóttir og Sveinbjörn Pálsson, Atli Sigþórsson (Kött Grá Pje) og Ásta Fanney Sigurðardóttir, Eva Rún Snorradóttir og Björn Þór Björnsson (Bobby Breiðholt), Elías Knörr og Elín Edda, Ewa Marcinek og Wiola Ujazdowska, Jónas Reynir Gunnarsson og Lára Garðarsdóttir og Kári Tulinius og Ragnhildur Jóhanns.  Verkin eru staðsett á húsveggjum við Kaffihús Vesturbæjar, Hótel Marina, Hús Menntavísindasviðs í Stakkahlíð, verslunarhúsnæði Arnarbakka, Laugaveg 21 og Laugardalslaugina.  Vídeóverk Ástu Fanneyjar og Atla verður sýnilegt í Borgarbókasafninu Spönginni út mánuðinn og auglýstar sýningar verða á Icelandair Hotel Reykjavík Marina.

Lestrarhátíð byrjar líflega með myndasögumaraþoni í Borgarbókasafninu í Grófinni. Það er haldið í tengslum við sýninguna Hungur hrollvekjunnar sem opnar 5. október  á Reykjavíkurtorgi. Sýndar verða vinningssögur myndasögusamkeppni Oulu-miðstöðvarinnar í Finnlandi árið 2015. Opnunin er hluti af starfsemi POP-UP myndasögukjarnans sem Oulu-myndasögumiðstöðin rekur á Borgarbókasafninu dagana 4.-7. október. Í tenglsum við hana eru m.a. smiðjur fyrir börn og fullorðna og höfundaspjall með norrænum myndasöguhöfundum.

Einnig opnar í Myndasögudeild Borgarbókasafnsins í Grófinni 7. október yfirlitssýning á myndasögum Þorra Hringssonar. Þar sýnir hann skissur, full unnin verk og fer í gegnum ferlið frá orði að mynd. Myndasögur Þorra verða til úr orðum. Þorri verður með smiðju fyrir unglinga í lok október á Borgarbókasafninu í Grófinni.

Ritþing í Gerðubergi verður 22. október og nefnist það Sjónhverfingar í ár þar sem rithöfundurinn Sjón er til umfjöllunar. Stjórnandi þingsins er Gunnþórunn Guðmundsdóttir og spyrlar eru Jón Karl Helgason og Guðni Elísson.
Lestrarhátíð verður með alþjóðlegasta móti í ár þar sem fjöldi erlendra gesta sækir Reykjavík heim. Alþjóðlega barnabókahátíðin Mýrin er sett 6. okótóber undir heitinu Sjálfsmynd - heimsmynd og koma tveir erlendir fræðimenn fram í nafni Bókmenntaborgarinnar. Hátíðin stendur til 9. október í Norræna húsinu.

Í Ráðhúsi Reykjavíkur verður hægt að lesa ljóð frá 17 Bókmenntaborgum UNESCO en sýning á ljóðum og myndum frá Bókmenntaborgum verður í Tjarnarsalnum. Í dag eru Bókmenntaborgir UNESCO tuttugu talsins og er sýningin kölluð „Svipmyndir frá Bókmenntaborgum“.

Ljóðaslammarar íslenskir og erlendir hittast á Íslandi í október og vinna saman í smiðjum. Afrakstur þeirrar vinnu verður sýndur á Loft hosteli 7. október. Verkefnið heitir Drop the Mic og er samstarfsverkefni Bókmenntaborganna Heidelberg, Krakár, Reykjavíkur og Tartu auk Kaupmannahafnar. Verkefnið hefst hér í Reykjavík í ár og lýkur í Kaupmannahöfn haustið 2017.

Kanadísk ljóðskáld heimsækja Ísland í október og vinna í ljóðasmiðjum með íslenskum höfundum. Þau verða með tvo viðburði þar sem ljóð og þýðingar verða lesin upp. Upplestrarnir verða á Kaffislipp 8. október og í Borgarbókasafni – Ársafni 9. október.

Breski listamaðurinn Sandhya Kaffo sýnir myndljóð (visual poetry) í Hannesarholti frá 16. til 30. október. Þetta er í fyrsta sinn sem Sandhya sýnir hér á landi. Hún vinnur bókverk og semur ljóð sem hún miðlar í ólíku formi, allt frá hefðbundnum textaverkum og vídeóverkum til ljóða sem varpað er á dansandi líkama.

Fjölmála rithöfundahópurinn Ós lætur að sér kveða á Lestrarhátíð í ár og gefur út fyrsta tölublað nýs bókmenntatímarits.
Lestrarhátíð lýkur á furðusagnahátíðinni IceCon sem haldin er í fyrsta sinn dagana 28. – 30. október. Hátíðin er alþjóðleg og verða heiðursgestir hátíðarinnar bandaríski rithöfundurinn Elizabeth Bear og sænski höfundurinn Karin Tidbeck. Markmið hátíðarinnar er að auka veg og virðingu furðumenningar hér á landi.

Í borginni eru spennandi myndlistasýningar í október þar sem orðlistin er uppspretta mynda og má sérstaklega nefna sýningu Errós, Stríð og friður sem opnar í Listasafni Reykjavíkur 7. október og sýninguna TEXTI í Listasafni Íslands. Þar eru valin textaverk úr safni Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur.

Grunnskólar, leikskólar og frístundaheimili taka að vanda þátt í Lestrarhátíð. í ár býður Bókmenntaborgin upp á smiðjur fyrir grunnskóla og geta þeir kynnt sér framboðið á vef Bókmenntaborgarinnar. Sleipnir fer á flug með leikskólabörnum og er þeim nú boðið í sögustundir með Sleipni í samstarfi við Borgarbókasafnið. Þetta verkefni verður áfram í boði fyrir leikskóla í Reykjavík komandi ár. Myndhöfundurinn Linda Ólafsdóttir verður með smiðju fyrir 4. bekk grunnskóla sem hún nefnir „Ævintýraleg náttúra“ og  er Bókmenntaborgin í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands varðandi smiðjur fyrir yngstu og elstu árganga grunnskóla. Kennarar og leiðbeinendur geta leitað hugmynda að verkefnum tengdum þema hátíðarinnar í hugmyndabanka Bókmenntaborgarinnar á vefsíðu Bókmenntaborgarinnar.

Heildardagskrá Lestrarhátíðar er aðgengileg á íslensku og ensku á vef Bókmenntaborgarinnar.