Leikskólabörn kanna búnað vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar

Framkvæmdir Samgöngur

""

Á sama tíma í fyrra var borgin á kafi í snjó "... gríðarleg hálka er á götum og gönguleiðum," sagði í frétt Reykjavíkurborgar 8. desember 2015 og að gera mætti ráð fyrir töfum á umferð, "það getur því tekið lengri tíma að komast í skólann". Nú eru götur auðar en starfsfólk þjónustumiðstövar borgarlandsins er á vaktinni og reiðubúið þegar kallið kemur. Leikaskólabörn komu í heimsókn. 

Strætisvagn keyrði vandræðalaust greiðar götur borgarinnar og flutti 25 börn frá leikskólanum Álftaborg í Reykjavík í heimsókn á þjónustumiðstöð borgarlandsins á Stórhöfða 8. desember. Þau eru á aldrinum 4-6 ára og skoðuðu allskyns skilti, umferðarljós, dráttarvélar og sorphirðubíla. Þau voru mjög áhugasöm og ánægð og þótti gaman að skoða vinnuvélar og hitta starfsfólk þjónustumiðstöðvarinnar. 

Daginn eftir áttu þau að lýsa og teikna sögur um reynslu sína af heimsókninni. Starfsfólki umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar þótti sömuleiðis mjög gaman að hitta krakkana og undirbjuggu heimsóknina af kostgæfni.

Vetrarþjónusta Reykjavíkurborgar

Þjónustumiðstöð borgarlandsins gegnir mikilvægu hlutverki þótt fyrsta vikan í desember 2016 sé sú hlýjasta í 145 ár. Starfsfólk fylgist með hálku á vegum og grípur til fyrirbyggjandi ráðstafanna. Miðstöðin hefur nýlega tekið í notkun átta vefvélar til að aðstoða sig við verkið ásamt vélum Vegagerðarinnar.

Heildarlengd gatna í Reykjavík eru um 628 km og af þeim sinnir Vegagerðin um 115 km. Húsagötur teljast um 219 km. Upphitaðar götur eru um 8,5 km. Eftir standa um 286 km sem borgin sinnir reglulega. Hverfastöðvar borgarinnar sinna strætóskýlum, bílastæðum, þjónustu fyrir Velferðasvið ofl. Þangað geta borgarbúar einnig sótt salt og sand.

Heildarlengd stígakerfis í Reykjavík er 806 km. Þar af sinnir þjónustumiðstöðin um 434 km daglega yfir veturinn og um 248 km fyrir kl. 8 á morgnanna. Að jafnaði klárast um 63 km af hjólastígum fyrir klukkan 7:30 á morgnana og um 185 km af göngustígum fyrir kl 8 og 164 km af af göngustígum til viðbótar fyrir kl 12. Hitakerfi eru í um 22 km af stígum í borginni. 130 km af stígum í húsagötum er sinnt ef hægt er innan þriggja sólarhringa frá síðustu snjókomu.

Flestar götur í helstu þjónustuflokkum eru tvíbreiðar. Í fyrstu umferð, sem jafnan er farin áður en fólk leggur af stað til vinnu, eru ruddir um 537 km af götum. Ef úrkoma er stöðug yfir daginn er mögulegt að fara 3 umferðir á dag og þá er keyrð vegalengd sem jafngildir hringveginum um Ísland.

Einmuna vetrarblíða ríkir á höfuðborgarsvæðinu en flestir vonast þó eftir hvítum jólum og þá er starfsfólk þjónustumiðstöðvar reiðubúið til að þjónusta göturnar ásamt hverfastöðvum og verktökum.

Tenglar

Vetrarþjónusta

Vefmyndavélar