Leikhús ævintýranna í grenndarskógi Rimaskóla

Skóli og frístund

""

Nemendur 6. bekkjar Rimaskóla sýndu snilldartakta í leiklist þegar þeir settu upp klukkustundar sýningu á ævintýrum H.C. Andersen í grenndarskógi skólans. 

Leiksýningin nefnist Klaufar og kóngsdætur, þrjú bestu ævintýri danska ævintýraskáldsins; Eldfærin, Svínahirðirinn og Hans klaufi.

Grenndarskógur Rimaskóla er eitt stórt leiksvið, þrjú rúmgóð rjóður fyrir leikara og áhorfendur. Skrautlegir búningar, myndræn sviðsmynd og að sjálfsögðu skógurinn setja sterkan svip á sýninguna. Nemendum og foreldrum er boðið í leikhúsið undir berum himni og kunna vel að meta. Þetta er áttunda árið í röð sem að nemendur 6. bekkjar Rimaskóla setja upp leiksýningu í skóginum að vori og er þetta því orðin ómissandi hefð í lok skólaárs.

Leikstjóri að þessu sinni var Agnar Jón Egilsson leikhússtjóri Leynileikhússins með dyggri aðstoð umsjónarkennara og list-og verkgreinakennara.