Laugarnesskóli og Laugasel innleiða Barnasáttmálann

Skóli og frístund

""

Hátíð var í Laugarnesskóla í morgun þegar nemendur, foreldrar og starfsfólk fögnuðu því að skólinn og frístundaheimilið Laugasel  fengu fyrstu viðurkenningu UNICEF sem Réttindaskóli og Réttindafrístund. Það þýðir að ákvæði Barnasáttmálans eru grundvöllur alls skóla- og frístundastarfs og að börnin eru meðvituð um réttindi sín alla daga. Það voru fulltrúar í réttindaráði Laugarnesskóla sem tóku við viðurkenningunni. 

Réttindaskólar UNICEF byggja á hugmyndafræði sem hefur verið innleidd í þúsundum skóla um allan heim og byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Réttindaskólar vinna markvisst að því að börn, kennarar, foreldrar og aðrir sem tengjast skólunum þekki réttindi barna og beri virðingu fyrir þeim. Þeir leggja Barnasáttmálann til grundvallar í öllu sínu starfi og skapa vinnuumhverfi fyrir börnin sem byggja á þátttöku þeirra, jafnrétti, lýðræði og viðurkenningu. Laugarnesskóli og Laugasel eru fyrsti skólinn og frístundaheimilið til að hljóta viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF í Reykjavík, Flatarskóli í Garðabæ og Krakkakot fengu sams konar viðurkenningu á alþjóðadegi barna. Aðdragandinn að þessari viðurkenningu Laugarnesskóla og Laugasels er tveggja ára undirbúningsstarf með nemendum og starfsfólki.  

Í Laugarnesskóla er starfandi réttindaráð nemenda sem hélt utan um hátíðardagskrána í morgun, en þar töluð fulltrúar í ráðinu, Sigríður Heiða Bragadóttir skólastjóri, fulltrúar UNICEF og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Síðast en ekki síst sungu allir saman líkt og hefð er fyrir í Laugarnesskóla. 

Börn þekkja réttindi sín betur
Viðhorfskannanir meðal barna og fullorðinna í Réttindaskólunum sýna þá þróun sem hefur orðið frá upphafi verkefnisins fyrir ári síðan. Niðurstöðurnar benda til afar jákvæðra áhrifa verkefnisins á þekkingu skólasamfélagsins á mannréttindum barna. Börnin þekkja réttindi sín betur og vita að þau verða ekki tekin frá þeim, jafnvel þótt þau geri eitthvað af sér. Þá eru fleiri börn sem segja fullorðna fólkið spyrja þau álits um hvernig hægt sé að gera skólann og frístundaheimilið þeirra betra.

Hvernig fær skóli viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF?
Skólarnir þurfa að uppfylla fimm forsendur Réttindaskóla UNICEF, sem byggja á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

  1. Þekking á réttindum barna - 42. grein Barnasáttmálans.
  2. Barna- og ungmennalýðræði – 12. grein Barnasáttmálans.
  3. Eldmóður fyrir réttindum barna – 2., 4., 12. og 29. greinar Barnasáttmálans
  4. Forsendur Barnasáttmálans hluti af daglegu starfi – 2., 4., 12. og 29. greinar Barnasáttmálans
  5. Samstarf – 2., 3. og 6. grein Barnasáttmálans.

UNICEF á Íslandi heldur utan um innleiðingu Réttindaskólans og hefur þegar verið  opnað fyrir umsóknir frá nýjum skólum sem vilja taka þátt á heimasíðu UNICEF á Íslandi. Rannsóknir á áhrifum Réttindaskóla erlendis, hafa sýnt fram á jákvæðar breytingar á skólabrag, börn urðu betri í að standa vörð um eigin réttindi og vellíðan þeirra jókst.