Kvikmyndahátíð frístundaheimilanna í Breiðholti

Skóli og frístund

""

Verðlaun veitt fyrir fjórar myndir sem gerðar voru af börnum á frístundaheimilunum. 

Kvikmyndahátíðin Filman 2017 var haldin fyrir fullum sal í Sambíóunum Álfabakka miðvikudaginn 24. maí. Hátíðin er árlegur viðburður á vegum Frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs. Þar sýna 8-9 ára gömul börn stuttmyndir sem þau hafa framleitt sjálf undir handleiðslu Hafsteins Vilhelmssonar, leikara og kvikmyndagerðarmanns. Börnin skrifa handrit, leika, sminka, hanna búninga og leikmuni.

Sýndar voru þrjár myndir og fern verðlaun veitt. Feluleikurinn frá frístundaheimilinu Regnboganum hlaut verðlaun fyrir flottustu búningana og Hjálp frá frístundaheimilinu Hraunheimum hlaut verðlaun fyrir best leiknu myndina. Sigurvegari hátíðarinnar var Töfrabeinið frá frístundaheimilinu Bakkaseli, en hún hlaut tvenn verðlaun, besta handritið og besta myndin.