Kóngsleikar 2014

Velferð Íþróttir og útivist

""

Kóngsleikar velferðarsviðs sem skipulagðir voru af Þjónustumiðstöð Vesturbæjar fóru fram í Þjóðhátíðarlundinum í Heiðmörk á dögunum. Veður var gott, hlýtt og stillt, skýjað og örlítill úði í lokin. Á síðustu stundu kom í ljós að tvö lið forfölluðust, lið Barnaverndar og Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða. Þess má geta að þetta eru fyrstu leikarnir af þessari gerð innan sviðsins, en eru vonandi komnir til að vera.

Undirbúningur keppnisliða var misjafn. Sumir höfðu haldið forkeppni og mættu með öflugu stuðningsmannaliði. Aðrir mættu fáliðaðri en engu að síður einbeittir og baráttuglaðir.

Vegna forfalla tveggja liða og þar sem keppnin er útsláttarkeppni var ákveðið að þau þrjú lið sem kæmust í aðra umferð kepptu öll hvert á móti öðru. Keppt var á tveimur völlum. Keppnin gekk vel og var ljóst að þáttur stuðningsmanna hvað gengi varðaði skipti miklu og ómuðu hvatningaróp um skóginn.

Niðurstaðan varð sú að lið Breiðholts, Laugardals og Háaleitis og Vesturbæjar kepptu til úrslita. Lið Laugardals og Háaleitis tapaði fyrir báðum hinum liðunum og tryggði sér þar með bronsverðlaun. Úrslitarleikurinn var æsispennandi en bæði liðin áttu sér sterk stuðningsmannalið sem hvöttu þau til dáða. Leikurinn snerist í upphafi Breiðhyltingum í vil og náðu þeir að fella alla heimakubba andstæðinganna og áttu eitt kast eftir á kónginn. Það mistókst hins vegar og í framhaldinu tókst Vesturbæingum hægt og sígandi að snúa leiknum sér í hag og þeir enduðu svo með að standa uppi sem sigurvegarar.

Að keppni lokinni fór fram verðlaunaafhending og þátttakendur fengu pylsu og gos. Úrslit urðu þannig að Vesturgarður vann og fær farandbikarinn, Víkurkónginn, til varðveislu næsta árið. Breiðholt fékk silfur og Laugardalur pg Háaleiti brons. Miðgarður fékk viðurkenningu fyrir gott stuðningsmannalið og fallega búninga.

Undirbúningsnefnd þakkar öllum, þátttakendum og stuðningsmönnum, góða keppni og prúðmannlega framgöngu. Vinningsliðið tekur að sér að undirbúa næstu kóngsleika sem væntanlega fara fram að ári. Þá þakkar undirbúningsnefndin öllum þeim sem aðstoðuðu við undirbúning og framkvæmd keppninnar.