Jólaskógur Skógræktarfélags Reykjavíkur opnar formlega 13. desember

Umhverfi Skóli og frístund

""

Það er alltaf mikil stemning þegar fjölskyldan fer saman í Heiðmörk að höggva sitt eigið jólatré. Í ár verður Jólaskógurinn á Hólmsheiði, í nágrenni Heiðmerkur, helgarnar 13. - 14. desember og 20. - 21. desember frá klukkan 11 til 16.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fær þann heiður að opna jólaskóginn fyrir höfuðborgarbúum með því höggva fyrsta tréð klukkan 11.00 laugardaginn 13. desember. Allur ágóði af sölu jólatrjáa rennur til uppbyggingar og viðhalds Heiðmerkur.

Jólasveinar koma í heimsókn alla dagana og varðeldur er kveiktur. Boðið verður uppá heitt kakó og jólalög sungin. Sagir og klippur verða til útláns. Einnig verður sala jólatrjáa á Jólamarkaðinum Elliðavatni í Heiðmörk þar sem opið verður allar helgar í aðventu. kl. 11-16.

Íslensk jólatré eru vistvæn. Þau eru ræktuð án eiturefna og eru ekki flutt milli landa. Í staðinn fyrir hvert tré sem höggvið er gróðursetur félagið að minnsta kosti þrjátíu tré.

Nánari upplýsingar um staðsetningu er að finna á heimasíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur www.heidmork.is, á fésbókinni sem og fésbók Jólamarkaðarins Elliðavatni.