Ingólfur stendur einn á Arnarhóli – hvar er Hallveig?

Mannréttindi

""

Kynslóðirnar móta söguna með þeim áherslum sem þær leggja á tiltekið fólk og tiltekna atburði. Það þarf ekki að leita langt yfir skammt til þess að sjá að áherslan hefur nær öll verið á karlmenn. 

Eða hvers vegna er Ingólfi Arnarsyni reist stytta á Arnarhóli en ekki Hallveigu Fróðadóttur sem kom samtímis honum til landsins og byggði með honum bæ í Reykjavík? Aðeins eitt dæmi af mörgum.  

Nýr bæklingur um kvennasöguslóðir

Hvers vegna kvennasöguslóðir? Þurfum við að ganga til að finna sögu kvenna? Getum við ekki fundið hana í bókum eða í sjónvarpinu eða á Netinu?

Kannski en sennilega ekki. Það er með sögu kvenna eins og sögu karla, eða sögu heillar þjóðar, að hún verður aldrei sögð til fulls. Hún er í rauninni ekki annað en þær heimildir sem hver kynslóð skilur eftir sig – að því gefnu að næsta kynslóð eyði þeim ekki, sem því miður gerist stundum, meðvitað eða ómeðvitað eins og segir í formála.

Kvennasöguslóðir opna að einhverju leyti heim genginna kvenna af öllum stigum þjóðlífsins. Reykjavík verður tæplega söm á eftir. 

Reykjavíkurborg hefur í samstarfi við Kvennasögusafn Íslands gefið út bækling um söguslóðir kvenna í Kvosinni og nágrenni hennar. Bæklingurinn er afar upplýsandi um þátt kvenna í mótun borgarinnar. Sjónum er beint að ýmsum húsum og stöðum í borginni sem m.a. tengjast kvennabaráttu, atvinnuþátttöku kvenna, listverkum eftir konur og baráttu kvenna fyrir þjóðþrifamálum. Í bæklingnum er kort þar sem merktir eru inn á allir staðirnir sem fjallað er um svo einfalt er að rölta með hann í farteskinu og kynna sér hlut kvenna í sögu borgarinnar.

Bæklingurinn bæði á íslensku og ensku.

Bæklinginn er einnig hægt að fá án endurgjalds í upplýsingaþjónustu Ráðhússins á jarðhæð þess, í Upplýsingaþjónustu ferðamanna, Aðalstræti 2 eða með því að hafa samband við mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar í gegnum netfangið mannrettindi@reykjavik.is.