Íbúðum fjölgað um eitt þúsund í Aðalskipulagi

Skipulagsmál

""

Breytt stefna um íbúabyggð í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 – 2030 var samþykkt í borgarráði í gær. Samkvæmt tillögunni eru heimildir til íbúðabygginga á fjölmörgum  byggingarsvæðum í borginni auknar í heild um allt að eitt þúsund íbúðir. Er þar fyrst og fremst um að ræða heimildir til að byggja smærri íbúðir en byggingarmagn ekki aukið að sama skapi.

Meginmarkmið og tilgangur breytingartillagna á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 – 2030  eru eftirfarandi:

  • Að mæta breyttum þörfum á húsnæðismarkaði
  • Tryggja framfylgd Húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar og húsnæðisáætlana borgarinnar til skemmri tíma
  • Skapa aukið svigrúm til uppbyggingar íbúða á völdum reitum, m.a. til að ýta undir byggingu smærri íbúða
  • Endurbæta framsetningu stefnu um íbúðarhúsnæði og skapa betri yfirsýn um
  • húsnæðismarkaðinn.

Breytingarnar ná yfir fjölmarga byggingarreiti 

Laugavegur+ Almenn heimild um fjölda íbúða á miðborgarsvæðinu (M1a-M1c), milli Lækjargötu og Snorrabrautar, er hækkuð úr 250 íbúðum í 400. Talið er mikilvægt að auka heimildir íbúðarhúsnæðis til mótvægis við þær íbúðir sem hafa horfið af húsnæðismarkaði vegna gistiþjónustu við ferðamenn.

Borgartún  Afmörkun reits sem hefur gengið undir nafninu Bílanaustsreitur er endurskilgreind þannig að hún nái til Borgartúnssvæðis milli Katrínartúns og Kringlumýrarbrautar. Reitur stækkar um 11 ha. Heimild um íbúðir á svæðinu eru hækkuð úr 200 í 350. Fjölgun íbúða svæðinu, sem er í samræmi við  markmið um blöndun byggðar, stafar bæði af aukningu byggingarmagns á svæðinu og umbreytingu atvinnuhúsnæðis í íbúðarhúsnæði.

KHÍ reiturinn  Kennaraháskólareiturinn er  endurskilgreindur þannig að gerð er grein fyrir  áformum um námsmannaíbúðir á svæðinu. Fjöldi íbúða á svæðinu verður um 150.  Byggingarmagn íbúða er óbreytt frá gildandi aðalskipulagi.

Suður-Mjódd Heimild um fjölda íbúða er hækkuð úr 100 í 130 til að skapa svigrúm til að byggja smærri íbúðir, þ.e. fjölga íbúðum án þess að auka byggingarmagn.
 

Sléttuvegur Núverandi heimild er hækkuð úr 250 í 350 íbúðir. Fjölgunin er vegna fjölgunar öryggisíbúða fyrir aldraða auk almennra íbúða og leiðir til óverulegrar breytingar á byggingarmagni.
Hlíðarendi Heimild um fjölda íbúða verði hækkuð úr 500 íbúðum í 650. Breytingin stafar einvörðungu af því að auka svigrúm til að byggja smærri íbúðir, þ.e. heildar byggingarmagn á viðkomandi svæði breytist ekki og ekki er gengið á heimildir um atvinnuhúsnæði.
 

Vísindagarðar í Vatnsmýri Reiturinn er endurafmarkaður þannig að hann nái til alls svæðis Vísindagarða (sjá miðsvæði M5a) og yfirtaki hluta af reit 14. Við það verða heimildir um fjölda námsmannaíbúða á svæðinu öllu 500 og þá eru meðtaldar þær íbúðir sem þegar eru byggðar á svæðinu.

Háskóli Íslands við Suðurgötu Svæðið við Háskóla Íslands við Suðurgötu er skilgreint sem sérstakur byggingarreitur fyrir íbúðir, þar sem gert er ráð fyrir möguleika á verulegri fjölgun námsmannaíbúða og háskólatengdra íbúða. Lagt er til að heimild um fjölda námsmannaíbúða á svæðinu verði 250. Viðmið um hæðir húsa verði í samræmi við núverandi yfirbragð byggðar á svæðinu.
 

Höfðatorg  Vegna breytinga á deiliskipulagi reitsins og þeirrar uppbyggingar sem þegar hefur átt sér stað verður heimild um fjölda íbúða á reitnum lækkuð. Áætlaður heildarfjöldi íbúða á reitnum, miðað við núverandi stöðu uppbyggingar og deiliskipulags, gæti verið 180 íbúðir í stað 250 íbúða áður.

Köllunarklettur  Lagt er til að ekki verði heimilt að byggja íbúðir á umræddu svæði þar sem reiturinn er aðskilinn frá nærliggjandi íbúðarbyggð með stofnbrautum, og stendur nálægt lóðum þar sem iðnaðarstarfsemi er heimil. Reitur 29 verður því felldur út sem byggingarreitur fyrir íbúðarbyggð, af mynd 13, en heimildir um magn atvinnuhúsnæðis á svæðinu verða auknar.

Spöngin-Móavegur Heimild um fjölda íbúða er hækkuð úr 100 í 130 til að skapa svigrúm til að byggja smærri íbúðir án þess að byggingarmagn sé aukið.

Úlfarsárdalur-Leirtjörn Til að undirstrika að Úlfarsárdalsreitir eru eitt skólahverfi, er lagt að til reitirnir verði skilgreindir sem ein heild. Heimildir um fjölda íbúða er óbreyttar og önnur skipulagsákvæði en forgangröðun reitanna felld út.