Íbúðahverfi í uppbyggingu

Umhverfi Skipulagsmál

""

Byggðin í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási er að taka á sig mynd. Í báðum hverfunum er gert ráð fyrir rúmlega 800 íbúðum í fjölbýlishúsum, rað-, par- og einbýlishúsum. Flestar lóðir eru seldar en uppbygging er á mismunandi stigum. 

Í myndbandinu hér fyrir neðan og á ljósmyndunum fyrir ofan má sjá stöðuna eins og hún er í dag. 
 
                
Úlfarsárdalur er 700 íbúða hverfi í uppbyggingu þar sem einstaklingar og fyrirtæki byggja íbúðarhúsnæði. Reykjavíkurborg selur lóðir í Úlfarsárdal á föstu verði og er byggingarréttur fyrir aðeins 120 íbúðir í einbýlis-, rað- og parhúsum óseldur.
 
Undir Reynisvatnsási er að byggjast upp 106  íbúða hverfi einbýlis-, rað- og parhúsa.   Reykjavíkurborg selur lóðir í Reynisvatnsási á föstu verði og er byggingarréttur fyrir 36 íbúðir, aðallega í einbýli, óseldur.  

Aukin þjónusta fyrir íbúa í Úlfarsárdal, Reynisvatnsási og Grafarholti

Nýr samþættur leik- og grunnskóli með aðstöðu fyrir frístundastarf mun innan tíðar rísa í Úlfarsárdal. Kennslu- og almenningssundlaug verður byggð, sem og íþróttahús Fram. Einnig verður í þessari þjónustumiðju starfrækt menningarmiðstöð og almenningsbókasafn, sem þjóna mun íbúum í Úlfarsárdal, Reynisvatnsási og Grafarholti.
 
Efnt var til hönnunarsamkeppni um þessi mannvirki og verða niðurstöður hennar væntanlega kynntar í næstu viku.

Lóðir áfram seldar á föstu verði

Borgarráð ákvað í haust að byggingarréttur á lóðum í Úlfarsárdal og Reynisvatns yrði áfram seldur föstu verði.  Á vef Reykjavíkurborgar má sjá þær lóðir sem enn eru lausar  reykjavik.is/lodir