Íbúðabyggð á lóð RÚV og þjónustumiðstöð í útvarpshúsinu

Velferð Skipulagsmál

""

Blönduð byggð leigu- og séreignaríbúða mun rísa á lóð RÚV í Efstaleiti. Þá mun Reykjavíkurborg leigja stóran hluta útvarpshússins undir Þjónustumiðstöð Laugardals, Háaleitis og Bústaða. Þetta var ákveðið með þremur samþykktum borgarráðs í morgun.

Samþykktir borgarráðs varðandi lóð og húsnæði Ríkisútvarpsins við Efstaleiti voru þrjár. 

Í fyrsta lagi var forsögn að samkeppnislýsingu um deiliskipulag Efstaleitis samþykkt.

Samhliða staðfesti borgarráð samkomulag við Ríkisútvarpið um lóðina þess efnis að Reykjavíkurborg muni ráðstafa 20% af byggingarrétti á reitnum til uppbyggingar á leiguhúsnæði. Á reitnum mun því rísa fjölbreytt byggð með blönduðum búsetuúrræðum. Þróun lóðarinnar verður í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 um þéttingu byggðar. 

Í þriðja lagi var samþykktur leigusamningur þar sem Reykjavíkurborg tekur á leigu stóran hlut útvarpshússins til fimmtán ára. Í þeim hluta hússins sem Reykjavíkurborg mun leigja verður starfrækt Þjónustumiðstöð Laugardals, Háaleitis og Bústaða sem er nú til húsa í Síðumúla. Stefnt er að því að þjónustumiðstöðin hefji starfsemi í Efstaleiti 1. maí eða jafnvel fyrr ef breytingar á húsnæðinu ganga vel.

Borgarstjóri og útvarpsstjóri Magnús Geir Þórðarson voru að vonum ánægðir með samkomulagið.

„Þessir samningar eru fagnaðarefni fyrir borgina. Efstaleitið er frábært svæði, þaðan er stutt í alla lykilþjónustu og allir innviðir til staðar. Þetta er því frábær reitur til að þétta byggð og verður án efa eftirsóttur til búsetu,” segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. ,,Þjónustumiðstöðin sem verður í RÚV húsinu flyst úr núverandi húsnæði í Síðumúla. Það verður mikil bragarbót, bæði fyrir notendur og ekki síður fyrir starfsfólk, þar sem Síðumúlahúsnæðið er óhentugra og óaðgengilegra. Hvað varðar skipulagssamkeppnina viljum við gefa sem flestum kost á að taka þátt. Uppbyggingin virðist geta farið hratt af stað þar sem sjálft útvarpshúsið verður bæði miðstöð menningar og lýðræðis á svæðinu auk þess að þjónusta íbúa Laugardals, Háaleitis og Bústaða,“ segir borgarstjóri.

„Við erum himinlifandi með þessa tvo stóru áfanga sem við fögnum í dag. Í fyrsta lagi er ánægjulegt að þróun lóðarinnar við Efstaleiti sé komin á svo góðan rekspöl og við höfum væntingar um að opin skipulagssamkeppni verði upphafið að  spennandi uppbyggingu svæðisins til framtíðar. Í öðru lagi fögnum við því að fá starfsfólk þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar sem sambýlinga í þetta góða hús,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.
 

Efnt til skipulagssamkeppni um lóð við Efstaleiti

Efnt verður til opinnar samkeppni um skipulag lóðarinnar á grunni samkeppnislýsingar. Þar kemur m.a. fram að stefnt er að fjölbreyttri blandaðri byggð í samræmi við Húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar 2020 og Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030.

Vonast er til að skipulagssamkeppnin skili framsæknum hugmyndum um nýja blandaða byggð, spennandi almenningsrými og fjölbreytta vistvæna samgöngumáta. Áhersla er lögð á að yfirbragð góðrar byggingarlistar einkenni svæðið og að það státi af heildstæðum götumyndum. Auk almennra séreignaríbúða og möguleika á uppbyggingu verslunar og þjónustu verður tryggt að einnig verði leiguíbúðir á reitnum. 

Samkeppnin verður formlega opnuð af  borgarstjóra og útvarpsstjóra í næstu viku en umsóknarfrestur um þátttöku í forvali verður tvær vikur frá því að opnað verður fyrir umsóknir. Nánari upplýsingar verða aðgengilegar á vefnum ruv.is og á vef Reykjavíkurborgar reykjavik.is.

Samkomulag um uppbyggingu

Lóðin sem samningur RÚV og Reykjavíkurborgar tekur til er alls um 5,9 ha.

Helstu ákvæði samningsins eru að 20% af byggingarrétti renni til Reykjavíkur. Mun sá hluti fara í uppbyggingu leiguhúsnæðis. RÚV mun selja afganginn á markaðsverði. Búsetuform á svæðinu verður blandað; leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir, íbúðir Félagsbústaða og Reykjavíkurhús.

Með þessum áfanga er Reykjavíkurborg að taka skref í átt að þéttingu byggðar. Ríkisútvarpið hefur lýst því yfir að það stefni að því að nýta betur lóðina við Efstaleiti og nýta fjárhagslegan ávinning til að lækka skuldir.

Þjónustumiðstöð í útvarpshúsið

Ríkisútvarpið og Reykjavíkurborg hafa gert leigusamning til fimmtán ára um hluta útvarpshússins.  Þjónustumiðstöð Laugardals, Háaleitis og Bústaða verður í Efstaleiti 1 í sambýli við Ríkisútvarpið.

Reykjavíkurborg tekur á leigu 1.900 fm til eigin nota auk sameiginlegra rýma og greiðir tæpar 60 milljónir í leigu á ári auk rekstrarkostnaðar.