Íbúafundur borgarstjóra í Gerðubergi

Stjórnsýsla

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri stóð fyrir íbúafundi í Breiðholti í Gerðubergi í gærkvöldi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsótti Breiðholt í gær. Hann hitti eldri borgara í félagsmiðstöðinni Árskógum, heimsótti byggingarreit í Suður Mjódd þar sem verið er að byggja íbúðir fyrir eldri borgara, ræddi við skólastjórnendur í grunnskólum hverfisins og heimsótti nemendur og kennara í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hverfisheimsókn borgarstjóra lauk með íbúafundi í Gerðubergi sem hófst klukkan átta.

Borgarstjóri fór yfir ýmsar merkilegar staðreyndir varðandi hverfið og lýsti því sem gert hefur verið í framkvæmdum á ýmsum sviðum í hverfinu. Þá fór hann yfir hverfisskipulag Breiðholts, væntanlega tengingu Borgarlínunnar við hverfið, íþróttamannvirki og uppbyggingu þeirra í Suður Mjódd, svo og möguleika á þéttingu byggðar víða í hverfinu.

Að loknu erindi borgarstjóra hélt Þórdís Lilja Gísladóttir erindi um heilsueflingu í Breiðholti en það verkefni hefur tekist afar vel og hefur fólk í öðrum hverfum borgarinnar lýst yfir áhuga á að hefja svipaða heilsueflingu.

Eftir að formlegri dagskrá lauk, svaraði borgarstjóri spurningum úr sal og voru þær nokkrar.

Nicole Leigh Mosty formaður hverfisráðs Breiðholts var fundarstjóri.

Glærur borgarstjóra frá fundinum