Í leit að vernd

Velferð Mannréttindi

""

Velferðarsvið stóð fyrir málþingi fyrir starfsmenn borgarinnar um alþjóðlega vernd á Íslandi en undanfarið hefur orðið mikil aukning á að einstaklingar og fjölskyldur komi til í Íslands og óska eftir alþjóðlegri vernd. 

Hjá Útlendingastofnun eru nú um 600 hælisleitendur þar af eru rúmlega 100 einstaklingar í þjónustu Reykjavíkurborgar. Verið er að leggja lokahönd á nýjan samning þar sem borgin mun þjónusta 200 einstaklinga. Fjallað var um ferlið frá því að einstaklingar/fjölskyldur koma til landsins og óska eftir alþjóðlegri vernd og hvað tekur svo við í kjölfarið. 

Rósa Ragnarsdóttir, lögfræðingur og yfirmaður móttöku og þjónustu umsækjanda um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun, sagði frá því hvernig fólki er forgangsraðað eftir því hvaðan það kemur. Sýrlendingar fá t.d. strax flýtimeðferð og þeir sem koma frá svokölluðu öruggu ríki og séð er að verði vísað úr landi eins og t.d. Balkanlöndunum.  Endanleg ákvörðun er þó aldrei tekin fyrr en búið er að taka viðtal við umsækjenda.  Umræðan snerist mikið um fjölgun en alls bárust 374 umsóknir í fyrra en til samanburðar koma núna um 200 á mánuði.  Rósa lagði áherslu á að bæta þyrfti verklag og leggja meira í málaflokkinn hjá ríki og sveitarfélögum.

Inga Sveinsdóttir, verkefnastjóri í Þjónustumiðstöð Vesturgarðs, Miðborgar og Hlíða, fjallaði um Þjónustu Reykjavíkurborgar við einstaklinga sem óska eftir alþjóðlegri vernd. Á  þjónustumiðstöðinni starfar fimm manna teymi  að málefnum hælisleitenda. Unnið er eftir samningi við Útlendingastofnun um ákveðinn fjölda hælisleitenda og ljóst að sú tala fer einungis hækkandi. Flestir hælisleitendur hafa verið karlmenn en fjölskyldum er jafnt og þétt að fjölga.

Helena N. Wolimbwa og Sigurrós Ragnarsdóttir, félagsráðgjafar á Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða fjölluðu um þjónustu borgarinnar þegar hælisleitandi hefur fengið stöðu flóttamanns en það getur verið erfitt að fá sömu réttindi og skyldur og aðrir Íslendingar því staða þeirra í samfélaginu er ekki sterk og því getur reynst erfitt að fóta sig í samfélaginu s.s. að finna atvinnu, húsnæði og læra tungumálið.  Flóttafólk þarf meiri stuðning til að fóta sig í samfélaginu.

Fríða Bjarney Jónsdóttir verkefnastjóri fjölmenningar hjá SFS, fjallaði um þjónustu við börn og hvað barni er fyrir bestu. Móta þarf sameiginlegt verklag milli þeirra sem þjónusta börn með hliðsjón af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Árið 2015 komu hingað 79 börn þar af voru sjö fylgdarlaus. Sérstaklega þarf að huga að börnum foreldra sem eiga yfir höfði sér að vera vísað úr landi. Fríða benti á nauðsyn þessa að hafa samráð og vinna saman auk þess sem margt væri hægt að læra af nágrannaríkjunum. Hún vitnaði að lokum í Nicole Dubus sem sagði að við þyrftum að tryggja að allt það sem við gerum í dag í þjónustu við flóttafólk og hælisleitendur miði að því hvernig við viljum sjá samfélagið okkar eftir 30 ár.

Ingibjörg Sigurþórsdóttir framkvæmdastjóri hjá Þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarnes, var að lokum með hugleiðingu, sem tónaði orð Nicole Dubus um að við þyrftum að taka á móti þessu fólki að virðingu, samhyggð og alúð.

Líflegar umræður voru í lokin þar sem allir voru sammála um að laga þyrfti ferlið og auka samvinna ríkis og sveitarfélaga. Fleiri sveitarfélög þyrftu að sýna ábyrgð og koma að móttöku hælisleitenda og flóttafólks ekki síst þegar kemur að húsnæðismálum.  Það þarf að gæta jafnræðis og veita öllu flóttafólki sömu eða svipaða þjónustu og kvótaflóttafólki. Kvótaflóttafólk hefur fengið allt aðra þjónustu en þeir sem koma til landsins í leit að vernd.

Starfsfólk velferðarsviðs Reykjavikurborgar leggur áherslu á að veita þessum einstaklingum og fjölskyldum eins góða þjónustu og mögulegt er. Stærsta hindrunin er hversu erfitt það er að finna leiguhúsnæði og hefur það oft reynst mjög erfitt fyrir þessa einstaklinga að fóta sig í samfélaginu vegna þess.

Erindi á málþingi;

Fyrir þá sem hafa áhuga á málaflokknum er hér einnig slóð á fund borgarstjórnar og fjölmenningarráðs. Þetta var opinn fundur undir yfirskriftinni Kastljós fjölmiðla á flóttafólki, hælisleitendum og fólki í leit að alþjóðlegri vernd