Hverfisfuglinn hefur sig til flugs á Barnamenningarhátíð

Umhverfi Skóli og frístund

""

Í dag kl. 14 opnar sýningin Hverfisfuglinn í Víkinni, Sjóminjasafninu og er hluti af Barnamenningarhátíð Reykjavíkur 2015. Sýningin er lokauppskera verkefnis um fuglalíf borgarinnar sem átján reykvískir leikskólar taka þátt í. Á sýningunni má sjá fjölbreyttan afrakstur af skapandi vinnu leikskólabarna þar sem hverfisfuglinn þeirra var viðfangsefnið. Sýningin er opin í dag til kl. 17 og bæði laugardag og sunnudag frá kl. 10 til 17. Öll börn og þeir fullorðnir sem fylgja þeim sem koma á sýninguna fá frítt inn á Sjóminjasafnið.

Hverfisfuglinn er fræðsluverkefni sem er unnið í samvinnu ýmissa fræðslustofnana Reykjavíkurborgar, Náttúruskóla Reykjavíkur sem mótar útinám leik- og grunnskóla í Reykjavík, Reykjavík-iðandi af lífi sem er fræðsluvettvangur um lífríki borgarinnar og svo átján reykvískra leikskóla sem eru staðsettir á víð og dreif um borgina.

Viðfangsefni Hverfisfuglsins er fuglalíf Reykjavíkur, sér í lagi þeir fuglar sem finnast í næsta nágrenni leikskólanna og einkenna hin mörgu og ólíku hverfi borgarinnar. Helstu markmið verkefnisins eru að auka vitund, tengsl, virðingu og jákvætt gildismat leikskólabarna um/fyrir/á náttúru í nærumhverfi sínu, að fræða leikskólabörn um íslenska fugla sérstaklega fuglategundir í Reykjavík, að efla útinám og setja í samhengi við þemaverkefni, að hvetja til samstarfs leikskóla Reykjavíkur á einfaldan hátt og að samtvinna áherslur og viðmið ólíkra námssviða leikskólanna, sérstaklega læsi og samskipti, sjálfbærni og vísindi og sköpun og menningu.

Verkefnið hófst í febrúar á þessu ári og byggðist kringum þá einföldu hugmynd að þátttökuleikskólar völdu sér sinn hverfisfugl, ýmist allur leikskólinn eða einstakar deildir innan þeirra. Lögð var áhersla á að val barnanna á sínum hverfisfugli færi fram lýðræðislega og byggðist á upplifun þeirra og viðhorfum til þeirra fugla sem finnast í næsta nágrenni, á útivistarsvæðum og í görðum og jafnvel þeirra sem heimsækja leikskólalóðirnar.

Leikskólarnir sem tóku þátt í verkefninu Hverfisfuglinn létu sér ekki duga að velja sér sinn fugl heldur var þeim frjálst að vinna áfram með viðfangsefnið, hvort sem það var þessi eini fugl eða fuglar almennt. Á sýningunni í Víkinni má sjá afrakstur þeirrar ótrúlega fjölbreyttu, hugmyndaauðugu og afkastamiklu vinnu og er greinilegt að sköpunargleði og mikill áhugi hefur svifið yfir vötnunum. Nær allir leikskólarnir sem tóku þátt í verkefninu sýna einhverja gripi á sýningunni allt frá glæsilegum teikningum og málverkum, bráðskemmtilegum og frumlegum skúlptúrum, búningum sem notaðir voru í leikritum, til ljósmynda sem sýna frá vinnunni innan leikskólanna.

Sjá einnig: www.facebook.com/reykjavikidandi og www.barnamenningarhatid.is.