Hver er Reykvíkingur ársins 2017?

Mannlíf Umhverfi

""

Borgarstjóri óskar nú eftir tilnefningum um Reykvíking ársins.  Leitað er að einstaklingi sem með háttsemi sinni eða atferli hefur verið til fyrirmyndar á einhvern hátt.

Borgarstjóri óskar nú eftir tilnefningum um Reykvíking ársins 2017. Er þetta í sjöunda sinn sem valið fer fram. Borgarbúar geta sent inn tilnefningu um hver á þennan ágæta titil skilinn á netfangið hugmynd@reykjavik.is  Frestur til að senda inn tilnefningar er til 10. júní nk.

Tilgangurinn er að leita að einstaklingi sem með háttsemi sinni eða atferli hefur verið til fyrirmyndar á einhvern hátt. Til greina koma aðeins þeir sem hafa lagt borginni lið, t.d. með því að halda borgarlandinu hreinu með ólaunuðu framlagi sínu, sýnt af sér djörfung og dug eða unnið Reykjavíkurborg og samfélaginu í borginni til góða með einhverjum hætti.

„Ég hvet borgarbúa til að tilnefna Reykvíking ársins. Þeir einstaklingar sem hafa hlotið titilinn undanfarin ár eru sannarlega til fyrirmyndar,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Þriggja manna dómnefnd velur Reykvíking ársins úr innsendum tillögum.

Eftirtaldir einstaklingar hafa verið Reykvíkingar ársins

2016 Hjónin Reinhard Reinhardsson og Karólína Inga Guðlaugsdóttir fyrir ræktunarstarf í Selási.
2015 Hanna Guðrún Sigurjónsdóttir, þroskaþjálfi, fyrir flokkun á rusli og umhverfisvernd í Kóngsbakka.
2014 bræðurnir Kristján og Gunnar Jónassynir, kaupmenn í versluninni Kjötborg, fyrir mikilvægt starf að samfélagsmálum.
2013 Ólafur Ólafsson, formaður íþróttafélagsins Aspar.
2012  Theodóra Guðrún Rafnsdóttir, kennari og leiðbeinandi, fyrir mikilvægt ræktunarstarf og handleiðslu fatlaðra ungmenna í skóglendinu við Breiðholt.
2011 Gunnlaugur Sigurðsson, fyrrv. lögreglumaður, fyrir óeigingjarnt starf fyrir húsfélagið við Fellsmúla 13-15