Hvatt til þátttöku á loftslagsráðstefnu

Umhverfi Skipulagsmál

""
Reykjavíkurborg hefur borist bréf frá Anne Hidalgo borgarstjóra Parísar, Eduardo Paes borgarstjóra Rio de Janeiro og Michael R. Bloomberg, fulltrúa Sameinuðu Þjóðanna í loftslagsmálum  þar sem þau hvetja til þátttöku á loftslagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna COP 21 sem fram fer í París dagana 4. – 6. desember nk.
Í bréfi Hidalgo segir að aðgerðir borgaryfirvalda geti skipt sköpum og markað söguleg tímamót fyrir heimsbyggðina alla. Hún hvetur til þátttöku á loftslagsráðstefnunni í París og segir að með sameiginlegum aðgerðum og skuldbindingum um að vernda jörðina megi tryggja framtíð komandi kynslóða.
 
Í bréfinu þakkar Hidalgo sérstaklega fyrir stuðnings- og samúðarkveðjur vegna hryðjuverkanna þann 13. nóvember sl.
 
Í bréfi Paes og Bloomberg segir að besta leiðin til að sýna frönsku þjóðinni stuðning í verki sé að snúa bökum saman 4. desember þegar augu alheimsins beinast að París vegna loftlagsráðstefnunnar.
 
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun taka þátt í COP 21 loftslagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna í París ásamt fleiri borgarfulltrúum og embættismönnum borgarinnar.