Hvatningarverðlaun velferðarráðs afhent í Hörpu

Velferð

""

Innflytjendur og börn og foreldrar eru hjartans mál verðlaunahafa hvatningarverðlauna velferðarráðs árið 2017 en verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag, föstudaginn 23. febrúar. Markmið verðlaunanna er að örva og vekja athygli á gróskumiklu starfi sviðsins. 

Gæði í þjónustu við innflytjendur

Það var Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi, sem fékk verðlaun í flokki einstaklinga en hún fær verðlaunin fyrir margra ára starf í vinnu með málaflokk innflytjenda. Edda hefur frætt starfsfólk á velferðarsviði um málefni flóttafólks jafnframt því að leggja áherslu á gæði þjónustu fyrir einstaklinga sem kjósa að búa sér heimili í Reykjavík, hvort sem er um að ræða umsækjendur um alþjóðlega vernd, kvótaflóttafólk, flóttafólk eða aðra einstaklinga af erlendum uppruna sem vilja búa í Reykjavík. Edda er frumkvöðull á sínu sviði og störf hennar einkennast af metnaði og þrautseigju við að þróa og halda á lofti afar mikilvægri þjónustu við íbúa Reykjavíkur.

Ævintýraleg vinna með börn og fjölskyldur

Teymi í Miðgarði, þjónustumiðstöð Grafarvogs,  hlaut verðlaunin í flokki hóps eða starfsstaðs. Teymið sinnir ráðgjöf og stuðningi við börn og fjölskyldur þeirra inni á heimilum þeirra sem utan. Meðlimir teymisins hafa sýnt frumkvæði og alúð í öllum sínum störfum og hafa þannig fyrirbyggt stærri vanda hjá fjölskyldum. Forvarnargildið í störfum þeirra er talið mikið og má þar m.a. nefna verkefnið útivist og virkni, sem er hópastarf fyrir ungmenni. Verkefnið er byggt á hugmyndafræði ævintýrameðferðar. Tilgangurinn er að auka félagslega færni ungmenna, draga úr neikvæðri og andfélagslegri hegðun, efla sjálfsstjórn og styrkja jákvæðni auk þess að styrkja tengsl og bæta samskipti á milli unglings, foreldra, fjölskyldu og annarra í nærumhverfi. Starfsfólk teymisins er Ragnar Harðarson, Sigurgeir Birgisson, Sigríður Ella Jónsdóttir, Ingrida Induse, Nína Jacqueline Backer og Hrönn Egilsdóttir.

Fróðir foreldrar

Í flokki um verkefni fengu Fróðir foreldrar verðlaun sem er samstarfsverkefni foreldrafélaga grunnskóla í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum, frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar og ungmennaráða Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Markmið verkefnisins eru að láta rödd foreldra og ungmenna innan skólasamfélags hverfanna heyrast, virkja samtakamátt foreldra sem mikilvægan þátt í forvörnum í uppeldi barna, nýta mannauð hverfanna og tengja við nærsamfélagið og að standa fyrir fræðslukvöldum sem byggð eru á óskum og hugmyndum forelda. Verkefnið hefur gengið vonum framar og hefur verið fullt út úr dyrum á fræðslukvöldum Fróðra foreldra. Hægt er að finna upptökur af fræðslunni á vef borgarinnar.

Farsæld í starfi

Jóna Kolbrún Halldórs, þjónustufulltrúi og Hrönn Egilsdóttir, ráðgjafi fengu einnig viðurkenningu fyrir farsælt starf á sviði velferðarmála.

Jóna Kolbrún hefur starfað hjá Reykjavíkurborg í rúmlega 20 ár en hún hefur alla tíð sinnt vinnu sinni af alúð og metnaði.  Hrönn Egilsdóttur, starfsmaður í Miðgarði, hefur líkt og Jóna Kolbrún unnið óeigingjarnt starf í velferðarmálum hjá borginni í yfir 20 ár. Hún brennur fyrir velferð barna og fjölskyldna en hún er hluti af teyminu sem vann til verðlauna í hópi starfsstaða.

Markmiðið með veitingu hvatningarverðlauna er hvetja fólk til góðra og skapandi starfa í málaflokknum en einnig að vekja athygli á hinu gróskumiklu starfi í velferðarmálum Reykjavíkurborgar. Að auki hvetja verðlaunin til aukinnar nýbreytni og þróunar starfsins.

Valnefndin hefur verið skipuð skipuð fulltrúum velferðarráðs, skrifstofu velferðarsviðs, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og BHM. Í valnefnd vegna verðlauna fyrir árið 2017 voru: Elín Oddný Sigurðardóttir, Gréta Björg Egilsdóttir, Garðar Hilmarsson og Anna Guðmundsdóttir en fulltrúa frá BHM vantaði í ár.

Greinargerð með hvatningarverðlaunum velferðarsviðs 2017