Hvatningarverðlaun fyrir metnaðarfullt frístundastarf

Skóli og frístund

""

Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir framsækið frístundastarf voru afhent í Gerðubergi í dag á fjölsóttri fagstefnu starfsfólks í frístundastarfi borgarinnar. 

Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs og Eva Einarsdóttir fulltrúi í íþrótta- og tómstundaráði afhentu hvatningarverðlaunin sem komu í hlut fimm verkefna á vegum frístundamiðstöðvanna.

Félagsmiðstöðin Höllin fékk verðlaun fyrir verkefnið Orkuboltar sem snýst um þjónustu við börn með fjölþættan þar sem áhersla er lögð á útivist og hreyfingu. Markmiðið er að efla sjálfstraust og sjálfsvitund, bæta vináttufærni og draga úr streytuvaldandi umhverfi með áherslu á persónulega þjónustu við hæfi hvers og eins.
Í umsögn dómnefndar um verkefnið segir m.a. „Með þessu mikilvæga og lausnamiðaða verkefni hefur náðst að bæta líðan og virkni  barna með fjölþættan vanda. Í stað þess að einblína á vandamálin eru fundnar leiðir til framþróunar, börnunum til heilla.“

Frístundamiðstöðin Miðberg og Ungmennaráð Breiðholts fengu verðlaun fyrir fjármálafræðslu fyrir 13-16 ára unglinga. Fulltrúar úr ráðinu undirbjuggu námskeiðin í samstarfi við sérfræðinga í fjármálum og voru þau haldin í grunnskólum Breiðholts á grundvelli jafningjafræðslu.
Í umsögn dómnefndar segir m.a. „Verkefnið er dæmi um fyrirmyndar unglingalýðræði þar sem unglingar bregðast við þörf og skapa vettvang til að vinna að málum sem á þeim brenna. Þarna er um valdeflingu unglinga að ræða, sem er öðrum hvatning og fyrirmynd.„

Félagsmiðstöðin Þróttheimar fékk verðlaunin fyrir verkefið Eflandi unglingar sem miðar að því að bæta geðheilbrigði og stuðla að víðsýni og umburðarlyndi gagnvart jaðarsettum  hópum.
Í umsögn dómnefndar segir m.a. „Þarna er unnið með óformlegt nám og virka þátttöku unglinga í heilsueflingu. Þarft viðfangsefni og nálgun sem gefur tækifæri til að fjalla um geðheilbrigðismál út frá fjölbreyttum sjónarhornum.“

 Tvö samstarfsverkefni fengu einnig viðurkenningu;

Félagsmiðstöðin Tían, Árbæjarskóli og þjónustumiðstöð Árbæjar fengu viðurkenningu fyrir Móttökuáætlun vegna nýrra íbúa. Það snýr að móttöku nýrra fjölskyldna í hverfinu með sérstaka áherslu á börn og foreldra af erlendum uppruna. Markmiðið er að styðja börn sem flytjast á nýjan stað við að samlagast og skapa tengsl við önnur börn í hverfinu. Fjölmenningarhópur Tíunnar með börnum af fjölmörgum þjóðernum hefur tekið virkan þátt í verkefninu frá upphafi.
Í umsögn dómnefndar segir m.a. „Greinilegt er að ánægja er með þessa nýju nálgun í vinnubrögðum við móttöku fjölskyldna af erlendum uppruna enda hlaut verkefnið margar tilnefningar. Það getur verið öðrum til eftirbreytni.“

Samstarfsverkefnið Fróðir foreldrar fékk að síðustu viðurkenningu en að því standa frístundamiðstöðin Tjörnin, foreldrafélög og ungmennaráð í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum, þjónustumiðstöð hverfisins og íþróttafélögin KR og Valur. Markmið þess er að virkja samtakamátt foreldra sem mikilvægan þátt í forvörnum og að standa fyrir fræðslukvöldum. Nú þegar hafa fjögur fræðslukvöld verið haldin þar sem m.a. hefur verið fjallað um kvíða, svefn, kynhegðun og kynvitund.
Í umsögn dómnefndar segir m.a.;Sérlega metnaðarfullt verkefni þar sem víðtæk samstaða hefur náðst um að styðja við foreldra í uppeldishlutverkinu. Verkefnið hefur verið vel kynnt og erindunum hefur verið streymt á vefnum og því öllum aðgengileg.„

Hvatningarverðlaunin voru í formi verðlaunagrips, útskorins fugls eftir Ingibjörgu H. Ágústsdóttur listakonu í Stykkishólmi.