Hvað á ný frístundamiðstöð að heita?

Skóli og frístund

""
Leitað er eftir hugmyndum að nafni á nýja sameinaða frístundamiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.
Á vormánuðum var ákveðið að sameina frístundamiðstöðvarnar Kamp og Frostaskjól og því varð þann 1. ágúst til ein stór og sterk frístundamiðstöð sem þjónusta mun íbúa í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum.
 
Nú vantar skemmtilegt nafn fyrir frístundamiðstöðina og því leitum eftir hugmyndum hjá íbúum, ungum sem öldnum.
Þú getur sent inn þína tillögu á hugmyndasíðu hér.

Skilafrestur er 1. september 2016.

Verðlaun eru í boði fyrir það nafn sem verður fyrir valinu.
Íbúar, starfsfólk, börn, unglingar og samstarfsaðilar eru sérstaklega hvattir til að taka þátt í nafnasamkeppninni og koma þannig að því að móta starfsemi nýrrar frístundamiðstöðvar.
 
Starfsemi frístundamiðstöðvanna miðar að því að efla félagsauð hverfanna. Sérstök áhersla er lögð á frístundastarf fyrir börn og unglinga og mun hin nýja frístundamiðstöð sjá um rekstur frístundaheimila og félagsmiðstöðva í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum.
 
Leiðarljósið er að börnum og unglingum standi til boða frístundastarf sem hefur uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Áhersla er lögð á virka þátttöku, reynslunám, lýðræði og mannréttindi. Sérstaklega er hugað að því að virkja einstaklinga sem þurfa sérstaka hvatningu og stuðning vegna fötlunar eða félagslegrar stöðu. 
 
Skrifstofa frístundamiðstöðvarinnar verður við Frostaskjól 2, s. 411-5700. Framkvæmdastjóri er Guðrún Kaldal.