Hraðhleðsla í miðborgina

Umhverfi Samgöngur

""

Orka náttúrunnar opnaði í gær hraðhleðslustöð fyrir rafmagnsbíla við Fríkirkjuveg í samstarfi við Reykjavíkurborg. Stöðin er sú fyrsta í miðborginni en sú níunda sem Orka náttúrunnar setur upp á árinu. Nýting stöðvanna hér á landi er tvöfalt meiri en í Noregi. Reykjavíkurborg hlaut nýverið Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs og áttu vistvænar samgöngur sinn þátt í útnefningunni. 

Það var Pétur Viðar Elínarson, rekstrarfulltrúi hjá sorphirðu Reykjavíkurborgar, sem fékk fyrstu hleðsluna úr stöðinni. Hann notar rafmagnsbíl við störf sín en næstum níu af hverjum tíu bílum sem Reykjavíkurborg rekur eru knúnir umhverfisvænni orku, metangasi eða rafmagni. Reykjavíkurborg hvetur líka til vistvænna samgangna meðal annars með uppbyggingu göngu- og hjólastíga og eflingu almenningssamgangna. Pétur Viðar og aðrir sem nota rafmagnsbíl til að komast á milli staða geta hlaðið bíla sína að 80% á 20-30 mínútum á hraðhleðslustöð.
 

Mikil nýting stöðvanna

Hraðhleðslustöðvar Orku náttúrunnar eru einu slíku stöðvarnar sem settar hafa verið upp hér á landi fyrir almenna notkun. Á rafbílaráðstefnu, sem haldin var á dögunum, kom fram í erindi  Páls Erland, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, að nýting stöðva fyrirtækisins er tvöfalt meiri en samsvarandi stöðva í Noregi. Norðmenn eru sú þjóð sem lengst er komin í rafbílavæðingu, enda rík af raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, rétt eins og Íslendingar.
 
Í Noregi eru um 36.000 rafbílar og liðlega 100 hraðhleðslustöðvar. Hér nálgast rafbílarnir að verða 200 talsins og hraðhleðslustöðvarnar eru nú níu að tölu. Nýting stöðvanna hér á landi fyrstu níu mánuði þessa árs svarar til þess að hver rafbílaeigandi hafi notað hana 14½ klukkustund. Samsvarandi tala fyrir Noreg er 7½ tími.'
 

Netið þéttist

Með samningi við BL, sem gerður var á síðasta ári, tók Orka náttúrunnar að sér að uppsetningu og rekstur tíu hraðhleðslustöðva sem BL og Nissan Europe lögðu til , rafbílaeigendum að kostnaðarlausu til að byrja með. Orka náttúrunnar lítur á þetta sem tilraunaverkefni til að stuðla að útbreiðslu á rafbílum og auka tiltrú fólks á þeim sem valkosti. Þeim var valinn staður með hliðsjón af því að flestir rafbílaeigendur eru á höfuðborgarsvæðinu. Með því að setja upp stöðvar þar og mynda einskonar krans um höfuðborgarsvæðið þjónuðu stöðvarnar best þessum tilgangi. Stöðvarnar eru við Bæjarháls, Sævarhöfða, hjá Skeljungi við Miklubraut og nú við Fríkirkjuveg í Reykjavík, við Smáralind í Kópavogi, IKEA í Garðabæ, á Fitjum í Reykjanesbæ, hjá N1 Borgarnesi og Olís á Selfossi. Næsta stöð verður sett upp á Akranesi.

Um Orku náttúrunnar ohf.

 
Orka náttúrunnar framleiðir og selur rafmagn til heimila og fyrirtækja um allt land og rekur þrjár virkjanir; jarðvarmavirkjanirnar á Hellisheiði og Nesjavöllum og vatnsaflsvirkjun í Andakílsá. Auk rafmagnsins framleiða jarðvarmavirkjanirnar heitt vatn fyrir hitaveituna. Orka náttúrunnar er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar: