Hjólavænir vinnustaðir fá vottun

Umhverfi Íþróttir og útivist

""
Hjólavæn vottun vinnustaða er nýjung á Íslandi og nú í samgönguvikunni voru viðurkenningar afhentar í fyrsta sinn. Það voru ánægðir starfsmenn fimm vinnustaða hjá fjórum fyrirtækjum sem tóku á móti þeim. Athöfnin fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur á þriðjudag.
Vinnustaðirnir fimm sem fengu vottun eru Vínbúðin á Stuðlahálsi, tryggingafélagið  Vörður í Borgartúni, Landspítali við Hringbraut og  í Fossvogi og umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar í Borgartúni.  Vinnustaðir eru flokkaðir í þrjá flokka, þ.e. gull, silfur eða brons, eftir því hve hjólreiðavænir þeir eru. Vínbúðin fékk gullvottun og er um leið fyrsti vinnustaðurinn á Íslandi til að fá slíka vottun og hinir fjórir fengu silfurviðurkenningar.

Sesselja Traustadóttir hjá Hjólafærni á Íslandi sem annast vottunina segir að Hjólavottun vinnustaða sé hvatning til vinnustaða að huga að aðstöðu fyrir reiðhjól viðskiptavina og starfsmanna. „Umsóknarferlið er bæði afskaplega einfalt og mjög hvetjandi fyrir vinnustaði til að hlúa að góðri umgjörð utan um viðskiptavini og starfsmenn sem koma þangað á reiðhjólum,“ segir Sesselja.  Gögn eru aðgengileg á vefnum hjolavottun.is