Herninglíkan skilar árangri í vinnu með börnum og ungmennum

Velferð

""

Í dag kynntu Stinne Højer Mathiasen, stjórnmálafræðingur, og Trine Nanfeldt, félagsráðgjafi og hjúkrunarfræðingur,  Herninglíkan fyrir starfsmönnum í barnavernd, í félagslegri ráðgjöf og stuðningi og skólaþjónustu hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Það eru velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Hafnarfjarðarbær sem standa fyrir komu Stinne Højer og Trine Nafeldt vegna þess árangur sem náðst hefur í sveitarfélaginu Herning í Danmörku með því að vinna heildrænt með börnum og barnafjölskyldum.

Vinna með börnum í Herning snýst í stuttu máli um þverfaglegt samstarf þar sem horft er á styrkleika barna og ungmenna, að mynda við þau náin tengsl, fylgja málum þeirra eftir og að byggja upp öryggisnet í kringum foreldra. Líkanið er að sænskri fyrirmynd og hefur verið unnið eftir aðferðum þess í nokkur ár í Herning.

Mikil áhersla er lögð á gagnreyndar vinnuaðferðir og mati á árangri. Markmið vinnunnar er að öll börn og ungmenni séu þátttakendur í samfélaginu, að þau nái að vinna með styrkleika sína og að þau hafa rétt til þess að lifa eins eðlilegu lífi og kostur er.

Fundurinn hófst með ávarpi Regínu Ásvaldsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs og síðan tóku þær Stinne og Trine að segja frá því hvernig unnið hefur verið eftir Herning líkaninu í sveitarfélaginu Herning með mjög góðum ávinningi.  

Eftir námskeiðið verður haldinn fundur með helstu stjórnendum velferðarsviðs þar sem aðferðir við innleiðingu líkansins verða rædd. ,,Það er mjög áhugavert að sveitarfélagið hefur náð bæði fjárhagslegum og faglegum ávinningi með því að vinna eftir aðferðafræðinni“ segir Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri. Sérfræðingar vinna með færri mál sem hefur leitt til þess að þeir fá tækifæri til að dýpka vinnuna og það hefur leitt í sér færri vistanir utan heimilis.

Á fundinn var fulltrúum frá Barna og unglingageðdeild, Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og Ráðgjafar og geiningarstöð ríkisins boðið auk fulltrúa frá skóla-og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Eftir helgi munu þær Stinne og Trine halda námskeið og fundi með bæjaryfirvöldum og starfsmönnum í Hafnarfirði.