Hernámsganga um Kvosina

Menning og listir

""

Hernámið er viðfangsefni kvöldgöngu þann 20. júlí næstkomandi. Sigurlaugur Ingólfsson, sagnfræðingur hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur leiðir gönguna.

Það verður gengið um Kvosina og Sigurlaugur rifjar upp hinn afdrifaríka dag, 10. maí 1940, þegar breskir landgönguliðar gengu á land í Reykjavík.

Íslendingar áttu sér þá von um að sogast ekki inn í ófriðarbálið sem geisaði í Evrópu en hjá því var ekki komist. Þennan sama dag hófu Þjóðverjar leiftursókn sína inn í Niðurlönd og Frakkland og Bretar áttu í vök að verjast í Norður-Atlantshafi. Bretar stóðu höllum fæti í Noregi og höfðu hernumið Færeyjar stuttu áður. Hernám Íslands var liður í áætlun Breta um að hefta aðgang Þjóðverja að Norður-Atlantshafi.

Í göngunni verður fetað í fótspor bresku hermannanna sem hér stigu á land, og rifjaðar upp sögur af þessum örlagaríka degi. Lagt verður af stað úr Grófinni milli Tryggvagötu 15 og 17 kl. 20. Gangan tekur um það bil eina og hálfa klukkustund og hentar öllum. Leiðsögnin fer fram á íslensku.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.