Heimsmót skáta í Reykjavík

Mannlíf Íþróttir og útivist

""

Heimsmót skáta fyrir 18 – 25 ára var sett í Laugardalshöll í morgun að viðstöddum skátum frá 96 þjóðum.  Alls taka um 5.000 skátar þátt í World Scout Moot.

Skátar munu setja svip sinn á bæinn næstu daga en Reykjavík er einn af 11 mótsstöðum fram að helgi, en þá safnast þeir saman á Úlfljótsvatni.   Í Reykjavík eins og á hinum stöðunum munu þátttakendur taka þátt í fjölbreyttri dagskrá sem snýst um ævintýri og virkni, menningu og umhverfi. Þeir munu einnig leggja samfélaginu lið með þúsundum vinnustunda í sjálfboðavinnu fyrir samfélagið og eru það verkefni eins og göngustígagerð, hreinsun stranda, leikir fyrir börn,  svo fátt eitt sé nefnt.

Sigurður Viktor Úlfarsson sem stýrir Reykjavíkurbúðunum segir að skátarnir verði í Öskjuhliðinni við stígagerð, sem og við margvísleg verkefni í nágrenni við Hagaskóla þar sem þau gista. Þá verða einnig heimsótt frístundaheimili fatlaðra þar sem þau verða með dagskrá. 
Skátarnir munu einnig ferðast um borgina og næsta nágrenni ýmist gangandi eða með strætó. Gönguferðir á Esjuna og önnur nálæg fjöll eru á dagskrá, sem og heimsókn út í Viðey.  Yfir 200 skátar taka þátt verkefni sem heitir „Meet the natives“ þar sem bakaðar verða pönnukökur og þeir tileinka sér fyrstu orð í íslensku, svo fátt eitt sé nefnt.  Sundlaugarpartý í Vesturbæjarlauginni og strandpartý í Nautshólsvíkinni eru viðburðir skáta og einnig munu skátar dansa um miðborgina síðdegist á föstudag og hvetja alla til að taka þátt í gleðinni.  Sigurður Viktor vildi þakka starfsmönnum Reykjavíkurborgar sem hafa aðstoðað við undirbúning mótsins og tekið skátum afskaplega vel.

Reykjavíkurborg er stuðningsaðili mótsins og flutti Þórgnýr Thoroddsen formaður íþrótta- og tómstundaráðs skátum kveðju borgarinnar og bauð þá velkomna til Reykjavíkur.  Þórgnýr sem einnig er skáti hefur tekið þátt í undirbúningi mótsins. Hann sagði að skátastarfið hefði gefið sér margt, ekki bara útivistarreynslu, gleði og gaman, heldur einnig fært honum sjálfstraust og að standa fyrir sínum skoðunum. 

Þeir sem vilja fylgjast með dagskrá skáta geta skoðað vefsíður þeirra og samfélagsmiðla: