Heildarlaun karla 5,8% hærri en kvenna

Mannréttindi Atvinnumál

""

Leiðréttur launamunur kynja hefur minnkað jafnt og þétt hjá Reykjavíkurborg frá árinu 1999.   Dagvinnulaun karla voru  14,9% hærri en dagvinnulaun kvenna árið 1999 en voru 3,4%  hærri í október 2012. Í báðum tilfellum er um að ræða upplýsingar úr  launakerfi borgarinnar.

Leiðréttur launamunur kynja hefur minnkað jafnt og þétt hjá Reykjavíkurborg frá árinu 1999.   Dagvinnulaun karla voru  14,9% hærri en dagvinnulaun kvenna árið 1999 en voru 3,4%  hærri í október 2012. Í báðum tilfellum er um að ræða upplýsingar úr  launakerfi borgarinnar.

Borgarstjóri hefur nú lagt til aðgerðir í ellefu liðum til að vinna á rót vandans og útrýma kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg. Tillögurnar eru byggðar á skýrslu aðgerðahóps um kynbundinn launamun sem skipaður var af borgarstjóra 3. apríl 2012. Aðgerðahópurinn skilaði skýrslunni í byrjun september en þar er farið í ítarlegu máli yfir þróun kynbundins launamunar hjá Reykjavíkurborg og lagðar til aðgerðir til að útrýma honum. 

Launamunurinn birtist helst í aukagreiðslum, nánar tiltekið  yfirvinnugreiðslum og akstursgreiðslum. Heildarlaun karla í fullu starfi hjá borginni eru 5,8% hærri en kvenna.

Samkvæmt tillögunum verður  núverandi fyrirkomulag fastra yfirvinnusamninga  endurskoðað samhliða innleiðingu á kynhlutlausu viðbótarlaunakerfi. Þá verður aðgengi að upplýsingum um laun og þróun launa hjá borginni stórbætt með reglulegri skýrslugjöf og stjórnendur fá fræðslu með reglubundnum hætti sem miðar að því að gera þá betur í stakk búna til ákvarðanatöku um launasetningu starfsfólks borgarinnar.

Launamunur kynja minnkar en er enn til staðar

Leiðréttur launamunur kynja minnkar hjá Reykjavíkurborg ef bornar eru saman niðurstöður úttekta sem gerðar voru í október á árinu 2009 og í sama mánuði á árinu 2012.

Munur á dagvinnulaunum karla og kvenna var á árinu 2009 3,7% en mældist 3,4% á árinu 2012. Meðal starfsfólks í fullu starfi og starfsmati voru dagvinnulaun karla 0,6% lægri en kvenna á árinu 2012, þó þeir hafi haft 3,4% meira en konur í heildarlaun.
 

Leiðréttur launamunur er sá munur sem stendur eftir þegar tekið hefur verið tillit til þess hvaða áhrif þættir eins og starf, starfsaldur og menntun hafa á launin. Óleiðréttur launamunur er hins vegar sá munur sem er á launum kynjanna áður en leiðréttingar hafa verið gerðar á áðurnefndum þáttum. Þegar hann er skoðaður hafa konur:
 

  • 101% af dagvinnulaunum karla
  • 54% af yfirvinnugreiðslum karla.
  • 49% af aksturgreiðslum karla. 
  • 91% af heildarlaunum karla.
     

Í krónum talið dró saman í heildarlaunamun kynjanna frá 2009 til 2012 – úr 48.654 kr. í 35.944 kr.

Konur eru rösklega 73% af starfsmönnum borgarinnar en karlar tæplega 27%.

Tillaga borgarstjóra um aðgerðir til að útrýma kynbundnum launamun verða ræddar á fundi borgarstjórnar  þriðjudaginn 1. október.