Hátíðardagskrá til minningar um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur

Menning og listir Mannréttindi

""
Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, lagði blómsveig frá Reykvíkingum að leiði baráttukonunnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Hólavallakirkjugarði í dag í tilefni kvenréttindadagsins og hundrað og eins árs afmælis kosningaréttar kvenna.
Það var blíðskaparveður og fjöldi fólks var saman kominn í kirkjugarðinum til að fylgjast með dagskránni.
Brynhildur Björnsdóttir, söngkona og Aðalheiður Þorsteinsdóttir, píanóleikari, sungu kvenréttindalög og Sóley Tómasdóttir lagði krans á leiði baráttukonunnar. Að því loknu flutti Sóley ræðu þar sem hún byrjaði á að óska viðstöddum til  hamingju með daginn.
„Straumur feðraveldisins er stöðugur og oft þungur. En það er þess virði að synda gegn honum – og hver veit nema einn góðan veðurdag náum við í lygna tjörn þar sem fólk af öllum kynjum getur unað öruggt og sælt saman.
Að þessu sögðu langar mig að þakka Bríeti fyrir hennar sundsprett. Samtíðarkonum hennar líka og öllum þeim konum sem hafa synt í kjölfarið allt fram til þessa dags. Ég vil þakka rauðsokkunum, kvennaframboðs- og kvennalistakonunum og öllum þeim fjölda grasrótarsamtaka sem hafa lagt sitt af mörkum til að gera þetta samfélag betra fyrir okkur öll og gert okkur kleift að stinga okkur til sunds og halda baráttunni áfram.“
 
Sóley sagðist vera að taka þátt í þessari hátíðardagskrá í síðasta sinn og væri þakklát fyrir að hafa fengið að vera þess heiðurs aðnjótandi að leggja krans á leiði Bríetar undanfarin fjögur ár.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir átti ríkan þátt í að koma á réttarbótum konum til handa og efla þannig lýðræðissamfélagið í heild sinni. Hún var stofnandi Kvenréttindafélags Íslands og var fyrsti formaður félagsins frá stofnun allt til ársins 1928. Markmið félagsins var að starfa að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn.
 
Konur í Reykjavík buðu fram sérstakan Kvennalista fyrir bæjarstjórnarkosningar árið 1908 og var það fyrsta sérframboð kvenna á Íslandi. Málin sem þær börðust fyrir í bæjarstjórn voru m.a. sundkennsla, fyrir bæði kynin, og leikvellir fyrir börn. Bríet Bjarnhéðinsdóttir beitti sér fyrir því í bæjarstjórn að börn fengju mat í skólanum. Matargjafir komust á og var þeim haldið áfram af og til fram á fjórða áratuginn.
 
Þann 19. júní  árið 1915 fengu giftar konur kosningarétt og kjörgengi í Reykjavík og Hafnarfirði og öðluðust þar með sjálfstæði frá eiginmönnum sínum til pólítískrar þátttöku, en ekkjur og ógiftar konur höfðu þá haft kosningarétt í um aldarfjórðung. Árið 1920 fengu íslenskar konur og hjú full pólitísk réttindi 25 ára.