Gullborg, Sæborg og Ingunnarskóli fá Menningarfánann

Mannlíf Menning og listir

""
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti í dag Gullborg, Sæborg og Ingunnarskóla Menningarfána Reykjavíkurborgar fyrir framúrskarandi menningarstarf með börnum og ungmennum.
Menningarfáni Reykjavíkur miðar að því að hlúa að listkennslu og skapandi starfi með börnum og ungmennum í leikskólum, grunnskólum, frístundamiðstöðvum og skólahljómsveitum. Hann byggir á menningarstefnu Reykjavíkurborgar þar sem áhersla er lögð á að menning og listir séu snar þáttur í uppeldi og kennslu barna og ungmenna. Markmiðið  með viðurkenningunni er að framlag barna til menningar og lista verði metið að verðleikum og gert sýnilegt, svo og að rækta menningarlega sjálfsmynd barna.

Gullborg
Menningarstarf með börnum á Gullborg hefur verið  fast í sessi um árabil. Í starfinu er stöðugt leitað leiða til að gefa börnunum tækifæri á sviði lista og þau taka virkan þátt í mótun starfsins.  Markvisst er unnið með umhverfis- og menningarvitund barnanna. Einnig er lögð áhersla á samstarf og sýnileika listastarfsins í nærumhverfi leikskólans. Unnið hefur verið að gerð kvikmynda með öllu sem því fylgir – handritagerð, búningagerð, klippingum og sýningahaldi. Listamenn eru fengnir til samstarfs til að styðja við og lyfta upp listastarfinu. Framlag foreldra er mikilvægur þáttur og þeir ómissandi hluti af starfinu leggja til þekkingu sína. Fjölbreyttur bakgrunnur starfsmanna er á sviði lista skapar tækifæri og nýta þeir sérþekkingu sína í starfinu með börnunum. Gullborg er með framúrskarandi menningarstarf með börnum. 
 
Ingunnarskóli
Ingunnarskóli er í nokkurri fjarlægð frá mörgum menningarstofnunum en hefur samt sem áður tekist að skapa og skila mörgum stórum samstarfsverkefnum í samvinnu við menningarstofnanir, auk verkefna með stofnunum sem liggja nær. Listir gegna veigamiklu hlutverki í starfinu innan skólans þar sem framlag nemenda og starfsmanna er mikils metið og gefið rými. Einnig er unnið bæði með listnemendum og listamönnum að ýmsum verkefnum. Unnar hafa verið og settar upp stórar sýningar m.a. á Barnamenningarhátíð og þá í samvinnu við til dæmis Safnahúsið og Þjóðminjasafnið. Í skólanum er lögð rík áhersla á breiða flóru listgreina til að auðga starfið og víkka sjóndeildarhringinn. Starfsfólk skólans sækir reglulega innblástur í menningar og listastarfið með heimsóknum í fjölbreyttar stofnanir nær og fjær. Ingunnarskóli er með framúrskarandi menningarstarf með börnum.
 
Sæborg
Stefna Sæborgar í lista- og menningarstarfi með börnum er skýr og gegna börnin lykilhlutverki sem gerendur, neytendur og þátttakendur í listastarfi jafnt utan sem innan leikskólans. Áherslan er á fjölbreytt, stór verkefni og sérlega vel er haldið utan um ferlið og það sett fram á aðgengilegu formi. Tekist hefur að skapa hefð fyrir sterku samstarfi við menningarstofnanir á Sæborg og starfsmenn og listamenn úr öllum greinum vinna úr reynslu barnanna með þeim og nýta til sköpunar. Sæborg hefur nýtt sér vettvang Barnamenningarhátíðar og meðal annars fengu börn þaðan, fyrst allra, að sýna verk sín á Kjarvalsstöðum í tengslum við hátíðina. Starfið á Sæborg hefur þannig verið frumkvætt og rutt veginn fyrir aðra. Sæborg er með framúrskarandi menningarstarf með börnum.