Grýluhátíð í Jólaskógi Ráðhússins

Mannlíf Menning og listir

""
Grýluhátíð verður haldin í Jólaskógi Ráðhúss Reykjavíkur laugardaginn 12. desember næstkomandi. Jólaskógurinn verður með nokkuð kvenlegum áherslum í ár til að fagna 100 ára kosningaafmæli kvenna og því tilvalið að halda þar hátíð sem er tileinkuð Grýlu, einni áhrifamestu kvenpersónu landsins til margra alda.
Grýla er talin til íslenskra jólavætta og er móðir íslensku jólasveinanna og faðir þeirra er Leppalúði.  Á hátíðinni verður boðið upp á fræðslu og skemmtiatriði þar sem Grýla er í aðalhlutverki.
 
„Á Grýla ömmu og frænkur?" Hvaðan kemur Grýla og hverjar eru frænkur hennar og á hún vinkonur í öðrum löndum? Átti Grýla fleiri eiginmenn en bara Leppalúða? Þessar spurningar og fleiri verða til umræðu.
 
Auk fræðslu verður einnig boðið upp á tónlist og mun hljómsveitin Ylja syngja og minnast Grýlu. Dúettinn Eva fjallar um stöðu Grýlu sem konu og setur hana í samhengi við Myrkur og mandarínur.
Knúzkórinn undir stjórn Hildigunnar Rúnarsdóttur frumflytur kvæði um dætur Grýlu, jólameyjarnar.
Skjóða jólamær mun svo kíkja inn og hver veit nema Grýla láti sjá sig líka.

Grýluaðdáendur eru hvattir til að heiðra Grýlu með því að teikna mynd af henni sem síðan verður hengd upp í jólaskóginum.

Dagskráin hefst klukkan 15.00 og lýkur klukkan 17.00
 
Jólavættirnar

Grýla er einmitt komin á stjá í miðborg Reykjavíkur ásamt sonum sínum jólasveinunum og eiginmanninum Leppalúða. Þau leynast á ýmsum húsveggjum, ásamt skyldfólki og ýmsum skemmtilegum og skringilegum jólavættum. Nú er í gangi skemmtilegur ratleikur ,,Leitin að jólavættunum“ ætlaður allri fjölskyldunni sem felst í að finna vættirnar og svara spurningum um þær. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann sem sigrar í leiknum.

Þeir sem vilja sjá þær allar saman í einu geta lagt leið sína á Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu þar sem þær eru komnar til þess að gleðja gesti safnsins í aðdraganda jólanna. Það er því tilvalið fyrir fjölskyldur að koma við í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi og kíkja á allar jólavættirnar á einum stað og leita síðan að hverri og einni á húsveggjum borgarinnar.
 
Hægt er að nálgast ratleikinn í Listasafni Reykjavíkur og öðrum söfnum borgarinnar, á upplýsingamiðstöð ferðamanna í Aðalstræti og í verslunum í miðbænum. Skilafrestur í leikinn er til og með 18. desember. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann sem sigrar í leiknum og verða úrslitin kynnt þann 21. desember.