Góðverk til Álfalands

Velferð Mannlíf

""

Jólin er tími gjafamildi og góðverka og oft heyrum við af einstaklingum sem gefa af öllu hjarta án þess að biðja um neitt í staðinn. Iðunn Gunnarsdóttir er ein þeirra en hún hefur selt svanaóróa og gefið ágóðann Álfalandi, skammtímavistun fyrir langveik og fötluð börn.

Fötluð og langveik börn fara í skammtímavistun til að létta á heimilum og gefa foreldrum og systkinum kost á því að fá frí.  Margrét Lísa Steingrímsdóttir, forstöðumaður í Álfalandi sagði frá góðverki Iðunnar þegar hún kom fyrir jólin og gaf enn eitt framlagið til Álfalands.

Iðunn er Árbæingur og gengur í Árbæjarskóla í 7. bekk. Hún er listhneigð og æfir sund hjá sundfélaginu Ármanni. Þetta byrjaði allt þegar hún lærði að gera svanaóróa á Youtube. Fyrst bjó hún til óróa handa ömmu sinni en henni þótti gaman að gera óróann og ákvað í kjölfarið að gera nokkra, selja og gefa ágóðann til Álfalands.

Í dag hefur Iðunn misst tölu á þeim fjölda óróa sem hún hefur gert en hún hefur gefið yfir 50 þúsund krónur. Óróana selur hún á 1500 krónur stykkið og allur ágóði rennur til Álfalands fyrir utan efniskostnað. Að sögn Margrétar, forstöðumanns, hefur ágóðinn farið í að endurnýja leikföngin í Álfalandi.

Það hafði áhrif á ákvörðun Iðunnar að eiga fatlaða systur, Líney, sem fer í vistun í Álfalandi. Líney fer í vistina þriðju hverju viku og stundum oftar en það gefur öðrum fjölskyldumeðlimum tækifæri til að gera hluti saman sem annars er ekki hægt þegar Líney er heima. Að sögn Iðunnar er það í uppáhaldi að fara út að borða.

Linda Bjarnadóttir, móðir Iðunnar, er stolt af dóttur sinni en hefur nú hvatt hana til að taka sér gott hlé á óróagerðinni, alla vega yfir hátíðirnar.

Þeir sem hafa áhuga á því að eignast óróa er bent á að senda fyrirspurn á linda@mumu.is