Gjaldskrá ferðaþjónustu fatlaðs fólks breytt

Velferð Samgöngur

""

Á fundi velferðarráðs í dag var samþykkt að að breyta gjaldskrá ferðaþjónustu fatlaðs fólks til að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks. 
 

Á fundi velferðarráðs í dag var samþykkt að afnema viðbótargjald fyrir notendur Ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Í gjaldskrá verður 1.100 króna gjaldi fyrir hverja ferð umfram 60 á mánuði fellt niður og miðað við hálft almennt gjald í strætó.

Ákveðið var að fresta ákvörðun vegna breytinga á reglum um hámarksfjölda ferða til næsta fundar ráðsins þann 5. febrúar nk. í ljósi ábendinga sem fram komu í áliti Umboðsmanns Borgarbúa sem bárust velferðarráði seint í gær. 

Áfram verður fundað með Strætó og fylgst náið með framkvæmd þjónustunnar. Borginni er í mun að framkvæmd Ferðaþjónustu fatlaðs fólks gangi eins vel og kostur er og að breytingar á fyrirkomulagi þjónustunnar verði til að bæta hana. Velferðarráð fylgist áfram með framkvæmd þjónustunnar eins lengi og þurfa þykir.
 

Mörg hundruð ferðir á dag

Mikil umfjöllun hefur verið um ferðaþjónustu fatlaðs fólks að undanförnu og því forvitnilegt að sjá  tölfræði um þjónustuna í Reykjavík.  Tölurnar eru teknar saman í september 2014, sem er nokkuð dæmigerður mánuður hjá þjónustunni.

  • Heildarfjöldi notenda var 706.
  • Konur 53 %, karlar 47%.
  • Heildarfjöldi ferða var 19.199.
  • Meðalfjöldi ferða pr. notenda var 27 ferðir.
  • Fjöldi notenda sem fór fleiri en 60 ferðir var 7,6%.
  • Fjöldi ferða umfram 60 ferðir alls  3,3,%.
  • Fjöldi notenda sem fór fleiri en 80 ferðir 1,3%.
  • Fjöldi ferða umfram 80 voru alls  0,3%.
  • Fjöldi samdægursferða var alls  1,2 %.