Gerum gott úr hlutunum

Umhverfi

""

Nýtnivikan verður haldin vikuna 18. - 24. nóvember 2017 en hún hefst með Repair Café þar sem fólk getur komið með hluti sem þarf að laga. 

Markmið vikunnar er að draga úr óþarfa sóun og hvetja fólk til að nýta hluti betur. Þetta er í sjötta sinn sem Nýtnivika fer fram hér á landi og þema vikunnar að þessu sinni er að gera við og viðhalda hlutum í stað þess að kaupa nýja.

Vikan hefst laugardaginn 18. nóvember með Kaffi Nýtni (repair café) en það er í fyrsta skipti sem slíkt er haldið hér á landi. Það er Kaffi Laugalækur sem hýsir viðburðinn frá eitt til fjögur en á kaffihúsinu verða nemendur úr Tækniskólanum, Katla Sigurðardóttir kjóla- og klæðskeri, ásamt Dr Bæk. Þau bjóða gestum fram aðstoð við að laga föt, húsgögn og hjól.  Að viðburðinum standa Umhverfisstofnun, Fenúr og Reykjavíkurborg í tilefni Nýtniviku.

Reykjavíkurborg stendur einnig fyrir leiknum „Gerum gott úr hlutunum“ sem gengur út á að safna hugmyndum að því hvernig er best að viðhalda og gera við hluti í stað þess að kaupa nýja.  Allir geta tekið þátt og sett inn mynd sem lýsir viðhaldi eða viðgerð á hlut sem hefði annars verið fleygt og keyptur nýr. Leiðbeiningar vegna keppninnar er að finna á Facebook.

Reykjavíkurborg, Fenúr og Umhverfisstofnun hvetja alla til að nýta hlutina betur hvort sem er með því að gera við þá eða með öðrum hætti. Ótal margir aðilar bjóða þjónustu sem getur lengt líftíma hluta, s.s. skósmiðir, saumastofur, bólstrarar, töskuviðgerðaþjónusta og raftækjaviðgerðaþjónusta. Nokkur heilræði sem hægt er að styðjast við og nánari upplýsingar um Nýtniviku.