Geitburður hafinn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Vorið er mætt í Laugardalinn í Reykjavík sama hvað veðrið gefur til kynna.  Huðnurnar eru nefnilega byrjaðar að bera og krúttlegheitin því í hámarki í fjárhúsinu.

Þegar þetta er ritað hafa 4 huðnur borið samtals átta kiðlingum, tvær huðnur og sex hafrar.  Faðir þeirra er hafurinn Djákni sem þrátt fyrir ríkidæmi sitt lætur sér fátt um finnast og slakar á á meðan á öllu þessu stendur.  Fyrstu kiðlingarnir komu í heiminn síðastliðinn fimmtudag (6.apríl) og það var huðnan Frigg sem reið á vaðið og nú eru tvær óbornar, þær Fiða og Ronja. 

Þessa dagana berast líka tíðindi úr smádýrahúsinu því þar hafa ungar landnámshænsna verið að skríða úr eggjum.  Þeir eru litfagrir eins og landnámshænsni eru þekkt fyrir og eyða fyrstu vikunum undir hitaperu svo þeim verði nú ekki kalt.

Opið verður alla páskahelgina frá kl. 10 til 17 og opið verður í hringekju og lest frá kl. 10:30 til 16:30.  Önnur leiktæki eru enn í vetrardvala nema þau sem ekki þarf starfsfólk við.