Geirsgata áfram opin um hjáleið

Framkvæmdir Samgöngur

""

Reykjavíkurborg mun leitast við að halda Geirsgötu opinni um hjáleið á meðan framkvæmdir við Hafnartorg og Austurhöfn standa yfir, að sögn Þorsteins Rúnars Hermannssonar, samgöngustjóra Reykjavíkurborgar.

Framkvæmdir við Hafnartorg hafa staðið yfir um nokkurt skeið og vegna þeirra  liggur Geirsgata nú um hjáleið innan lóðar Austurhafnar ehf., en þar hefjast  brátt framkvæmdir við íbúðir við Austurhöfn.  Hluti þessara framkvæmda ganga út á að gera bílakjallara, en bílakjallarinn við Hörpu og bílakjallarinn við Hafnartorg verða samtengdir. Ofan á hluta bílakjallara kemur ný Geirsgata.

Stefnt var að því að færa hjáleiðina þann 15. apríl sl. en þar sem töf varð á upphafi framkvæmda síðasta haust náðist það ekki. Áfram verður því notast við hjáleiðina.

Að sögn samgöngustjóra Reykjavíkurborgar er um að ræða mjög flókna gatnaframkvæmd þar sem margir þættir þurfa að ganga upp og því eðlilegt að slíkt komi upp. „Við munum gera okkar besta til að halda götunni opinni þar til framkvæmdum lýkur og við munum eiga samtal við verktaka á svæðinu um hvernig við leysum það. Komi til einhverra lokana verða þær auglýstar með góðum fyrirvara og lokunartími verður lágmarkaður,“ segir Þorsteinn.