Fundur fólksins - lýðræðis- og stjórnmálahátíð

Mannlíf

""
Það var rífandi stemning á blaðamannafundi Fundar Fólksins í dag, þar sem glæsileg dagskrá hátíðarinnar var kynnt. Fundur Fólksins er lýðræðis- og stjórnmálahátíð með það að markmiði að efla umræðuhefð á Íslandi, skapa nýjan vettvang fyrir skemmtilegri, líflegri, uppbyggjandi og fræðandi samræður. 
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra ávarpaði blaðamannafundinn og fagnaði því að hátíðin skuli vera haldin hér í annað sinn en fyrsta hátíðin var haldin með aðstoð Norrænu ráðherranefndarinnar í fyrra. Hún sagði frá því þegar hún fór fyrir nokkrum árum á systurhátíð Fundar Fólksins ,Almedalsveckan”  sem haldin er í júlí ár hvert á Gotlandi í Svíþjóð. Henni fannst heillandi að sjá þar hvernig lýðræðið virkaði að stjórnmálamenn, almenningur og félagasamtök væru í virku samtali um samfélagsmál á afslappaðan máta. Þá hafi hún uppgötvað að Ísland væri eina Norðurlandaþjóðin sem hefði ekki slíka hátíð og að gera þyrfti bragarbót á því sem nú væri í höfn. Eygló sagði Fund Fólksins mikilvægan fyrir lýðræðið í landinu því á hátíð sem þessari væru málin rædd í víðara samhengi í þægilegu andrúmslofti og dagskráin sem kynnt var í dag bæri þess merki að af nægum málefnum væri að taka.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri ávarpaði einnig blaðamannafundinn. Hann sagðist vera stoltur af því að borgin kæmi að þessari hátíð því hún væri mikilvæg fyrir okkur öll.  Hann ræddi um sögu hátíða af þessu tagi en sú fyrsta og stærsta er Almedalsveckan í Gotlandi í Svíþjóð.  Upphaf þeirrar hátíðar má rekja til þess þegar Olof Palme, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, í óþökk konu sinnar sté á vörubílspall til að ræða samfélagsmál í sumarfríi fjölskyldunnar árið 1967.Dagur sagði að Fundur Fólksins væri langtímaverkefni sem þyrfti að vaxa og dafna enda sýndi dagskráin í ár það að næg málefni brynnu á fólkinu í landinu.
 
Þau fögnuðu bæði framtakinu og sögðu það mikilvægt fyrir lýðræðið þar sem stjórnmálamenn væru gestir og komnir til að hlusta fremur en að stjórna umræðunni.
 
Eftir blaðamannafundinn var boðið uppá pönnukökur, vöfflur og hamborgara. En samkvæmt nýjasta myndbandi Þorsteins Guðmundssonar fyrir Fund Fólksins eru pönnukökur fyrir þá sem vilja ræða persónuleg málefni, vöfflur eru fyrir þá sem vilja ræða samfélagsmál en þeir sem vilja ræða stjórnmál þurfa eitthvað sterkara, eins og hamborgara. Það skal tekið fram að bæði Eygló og Dagur fengu sér hamborgara.
Hér er hægt að sjá myndbandið (slóð)
 
Ingibjörg Gréta, verkefnastjóri sagði það gleðiefni að hátíðin í ár hefði tvöfaldast frá því í fyrra en í ár eru rúmlega 80 þátttakendur með um 100 viðburði.
 
Fundur Fólksins opnar formlega föstudaginn 2.september nk. kl. 11 með ávarpi forseta Íslands, félags- og húsnæðismálaráðherra og borgarstjóra. Hátíðin er öllum opin og aðgangur ókeypis.
 

Framkvæmdaaðili Fundar Fólksins er Almannaheill - samtök þriðja geirans með stuðningi velferðarráðuneytið, Reykjavíkurborgar og Norræna hússins.


Dagskrána má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar www.fundurfolksins.is