Friður og nýjar nálganir

Mannlíf Mannréttindi

""

Þær flóknu áskoranir sem blasa við heiminum í dag kalla á djarfar hugmyndir og nýjar nálganir.  Þessi alheimsvandamál verða ekki leyst án aðkomu ungs fólks. Á alþjóðlegri ráðstefnu sem Höfði Friðarsetur stendur fyrir verður lögð áhersla á þau jákvæðu áhrif sem ungt fólk getur haft á samfélag sitt, leiða saman ólíkar kynslóðir og finna skapandi lausnir og leiðir til þess að takast á við þær.

Ráðstefnan er skipulögð af Höfða Friðarsetri og verður haldin í Veröld - húsi Vigdísar, Háskóla Íslands á morgun 10. október og hefst kl. 10:00 og lýkur klukkan 17:00. 

Aðalræðumenn ráðstefnunnar eru Tawakkol Karman, Unni Krishnan Karunakara og Faten Mahdi Al-Hussaini.

Tawakkol Karman er handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2011 og blaðamaður frá Jemen. Hún hefur beitt sér bæði fyrir tjáningarfrelsi, bættri stöðu kvenna og stofnað svokölluð ,,Samtök kvenna án hlekkja” sem eru öflugt baráttuafl í Jemen. Unni Krishnan Karunakara er fræðimaður við Jackson Institute for Global Affairs við Yale háskóla og fyrrum forseti samtakanna Læknar án landamæra. Hann hefur meðal annars unnið í Eþíópíu, Azerbaijan, Bangladesh og Kongó auk þess að hafa sinnt rannsóknum og kennt í fjölmörgum háskólum víða um heim. Faten Mahdi Al-Hussaini er baráttukona gegn öfgum og ofstæki og stofnandi JustUnity í Noregi. Hún er talskona NRK gegn hatursorðræðu. 

Meðal annarra þátttakenda eru Emi Mahmoud, ljóðskáld og akxtivisti, Deqo Mohamed, læknir frá Sómalíu sem hefur barist fyrir og aðstoðað flóttamenn víða um heim, Achaleke Christian Leke, sem hlotið hefur viðurkenningu breska samveldisins fyrir framlag sitt til friðar og baráttu við ofbeldisfulla öfgahópa í Kamerún, Georgina Campbell Flatter, framkvæmdastjóri þróunar- og frumkvöðlastofnunar MIT og Élise Féron, fræðimaður við Tampere Peace Research Institute í Finnlandi.

Skráning fer fram á www.fridarsetur.is

TAKTU DAGINN FRÁ!