Friðarráðstefnan The Spirit of Humanity Forum í Reykjavík

Mannlíf Mannréttindi

""

Alþjóðlega friðarráðstefnan The Spirit of Humanity Forum fer fram í þriðja skiptið í Reykjavík dagana 27. - 29. apríl.

Alþjóðlega friðarráðstefnan The Spirit of Humanity Forum fer fram í þriðja skiptið í Reykjavík dagana 27. - 29. apríl. Reykjavíkurborg var valin sem aðsetur ráðstefnunnar þar sem Ísland er eitt friðsælasta land í heimi og þá er stefnt að því að Reykjavík verði höfuðborg friðar í heiminum. Ráðstefnan fer fram í Háskólabíói þar sem hátt í 30 leiðtogar á sviði friðar, umhverfismála og menntunar verða með fyrirlestra sem tengjast yfirskriftinni: Caring for a World in Transition: Building a Foundation for a Loving and Peaceful World.

Frumsýning ,,A Quest for Meaning“
Ráðstefnan hefst á frumsýningu heimildarmyndarinnar ,,A Quest for Meaning“ í Háskólabíói 27. apríl kl. 20. Leikstjórar myndarinnar, Nathanaël Coste og Marc de la Menardière, verða viðstaddir sýninguna. Myndin fjallar um ferðalag þeirra um heiminn þar sem leitað er svara við þeim áskorunum sem mannkynið tekst á við. Í myndinni koma m.a. fram Vandana Shiva, Satish Kumar, Pierre Rabhi og Bruce Lipton. Nemendur frá Listaháskóla Íslands frumsýna dansverk sem er sérstaklega samið fyrir ráðstefnuna fyrir sýningu myndarinnar.
Fyrirlesarar á ráðstefnunni taka þátt í umræðum eftir frumsýninguna. Aðgangur er ókeypis og skráning fer fram á: soh@sohforum.org. Viðburður á Facebook

Leiðtogar í umhverfismálum, friði og menntun
Um 200 manns alls staðar að úr heiminum taka þátt í ráðstefnunni. Meðal þeirra eru leiðtogar á sviði friðar, umhverfismála og menntunar og aðrir sem vinna að varanlegum breytingum í heiminum í átt til friðar. Viðfangsefnið er að skoða hvernig hver og einn getur haft áhrif til breytinga með því að hafa sameiginleg grunngildi mannsins eins og kærleik, umhyggju, virðingu og samkennd að leiðarljósi í einkalífi og starfi og hvernig það hefur síðan áhrif út í samfélagið. Á ráðstefnunni verður sjónum einnig beint að mikilvægi andlegrar ástundunar í allri forystu og að nýjum leiðum í stjórnun þar sem virðing, umhyggja, traust, samtal og samkennd eru höfð að leiðarljósi. Skylda okkar sé að bera umhyggju fyrir jörðinni og mannkyninu í heild.  
Meðal þeirra sem koma fram á ráðstefnunni eru: Gulalai Ismail, stofnandi Aware Girls í Pakistan, en hún er margverðlaunuð fyrir friðarstörf og baráttu sína fyrir rétti stúlkna til að mennta sig, Lord John Alderdice, sem átti stóran þátt í Good Friday Agreement á Norður-Írlandi, Dr. Rama Mani, sérfræðingur í friðar- og öryggismálum sem hefur m.a. unnið með Hvítu hjálmunum í Sýrlandi og Hrund Gunnsteinsdóttir sérfræðingur á sviði friðaruppbyggingar.

Ráðstefnan er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar, Höfða, friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, Education 4 Peace Foundation, Pure Land Foundation, Brahma Kumaris World Spiritual University, Fetzer Institute og Guerrand-Hermès Foundation for Peace.

Draumasmiðjan Memmm í Háskólabíó
Í tengslum við Friðaráðstefnuna ætla krakkar úr ýmsum skólum í Reykjavík að umbreyta anddyri Háskólabíós í eitt stórt ,,Galdralistaverk“ þar sem vatn og fiðrildi eru helstu umfjöllunarefnin. Þá eru foreldrar og sex ára og eldri börn boðin velkomin að taka þátt í verkefninu sem fer fram dagana 25.-26. apríl frá kl. 10-16. Linda Mjöll Stefánsdóttir  hönnuður heldur utan um sýninguna sem er hluti af Barnamenningarhátíð.