Framtíð fjölsóttasta ferðamannastaðar Íslands

Mannlíf Menning og listir

""

Reykjavíkurborg býður öllum ferðaþjónustuaðilum í Reykjavík á málþing og vinnufund 8. apríl í Hörpu þar sem aðalumræðuefnið er framtíð og þróun Reykjavíkur sem áfangastaðar. Farið er yfir aukningu í komum erlendra ferðamanna og hvaða áhrif, neikvæð og jákvæð, hún hefur haft á samfélagið.

 

Kynntar verða niðurstöður könnunar á viðhorfi íbúa á höfuðborgarsvæðinu til ferðaþjónustu og erlendir sérfræðingar halda erindi um hvernig tekist var á við áskoranir vegna stóraukins fjölda ferðamanna í borgunum Barcelona og Amsterdam. George William Carnes, forstjóri Turisme de Barcelona flytur erindið „The challenges and solutions related to tourism in Barcelona“ en þar í borg hafa yfirvöld þurft að taka á gríðarlegum áskorunum sem komið hafa upp í tengslum við mikla aukningu í komum erlenda gesta og náð árangri.

Í nóvember 2014 samþykkti menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar að hefja endurskoðun á aðgerðaáætlun ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar til 2020 vegna breyttra forsenda í kjölfar mun meiri fjölgunar ferðamanna en spár gerðu ráð fyrir. Undanfarna mánuði hefur stýrihópur unnið með ráðgjöfum að endurskoðuninni og eru málþingið og vinnufundurinn liður í þeirri vinnu. Áhersla hefur verið lögð á að skoða félagsleg þolmörk vegna vaxandi ferðaþjónustu í miðborginni og gildi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar fyrir Reykjavík og íbúa borgarinnar s.s. sköpun fjölda starfa, í aukinni flóru veitingastaða og menningarviðburðum og afþreyingu hverskonar.

Ferðaþjónustuaðilar í Reykjavík eru hvattir til þess að koma og taka þátt í að móta framtíð ferðaþjónustu í Reykjavík, fjölsóttasta ferðamannastað landsins. Fundurinn er haldinn á vegum Höfuðborgarstofu.