Framkvæmdir við nýtt hverfi á RÚV-reit

Atvinnumál Framkvæmdir

""

Á RÚV-reit við Efstaleiti er hafin uppbygging 360 íbúða hverfis, en gatnagerð og lagnavinna hófst þar í nóvember.  Lágaleiti og Jaðarleiti eru tvær nýjar götur sem byggðar verða upp með tilheyrandi lögnum.

Hluti af jarðvegsvinnu tölvuverð bergfleygun og fylgir henni nokkur hávaði og trufun. Áætlað er að sú vinna standi yfir með hléum fram á sumar. Hluti af verkinu er að færa Reykjaæð, sem er stór heitavatnslögn, en áætlað er að þeirri vinnu ljúki í apríl á þessu ári.  Á þessu tímabili má búast við truflunum á umferð um Háaleitisbraut og Efstaleiti. Verklok gatnagerðar eru áætluð vorið 2019.

Framkvæmdaaðilar biðjast velvirðingar á því ónæði sem af framkvæmdum kann að stafa og hvetja þá sem hafa ábendingar að hafa samband við umsjónarmenn og eftirlitsaðila. Nöfn þeirra, netföng og símanúmer má finna á upplýsingasíðu í framkvæmdasjá.

Gatnagerð og lagnavinna er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, RÚV, Veitna, Skugga, Mílu og Gatnaveitunnar. Samhliða gatnagerðinni er unnið að uppbygging húsnæðis.

Grænt og búsetuvænt hverfi

Á RÚV-reitnum er gert ráð fyrir 360 íbúðum, auk 800 fermetra af verslunar- og þjónustuhúsnæði. Borgarstígar fyrir gangandi og hjólandi munu liggja um lóðirnar og tengjast stígakerfi borgarinnar. Gert er ráð fyrir yfirbyggðum reiðhjólastæðum og kvaðir eru um gönguleiðir almennings um lóðir á ýmsum stöðum. Þá eru kvaðir í deiliskipulagi um samnýtingu bílastæða en búist er við samlegðaráhrifum vegna samsetningar þjónustustarfsemi og íbúðabyggðar.

Yfirbragð hverfisins verður grænt og í því skyni verða þök húsanna lögð gróðurþekju, eins og segir í greinargerð með deiliskipulagsskilmálum. Þetta bæti loftgæði borgarinnar og létti á fráveitukerfum, auk þess sem græn þök bæti útsýni og yfirbragð. Þá verða götutré gróðursett meðfram götum á skipulagssvæðinu. Þar sem misháir húshlutar liggja hver að öðrum er heimilt að nýta þak lægri byggingarinnar sem þaksvalir.

Gert er ráð fyrir fjölbreytileika í íbúðastærðum. Engin ein íbúðargerð verði umfram 35% íbúða á hverri lóð og sameiginlegur fjöldi eins og tveggja herbergja íbúða fari aldrei yfir 60%.  Sorphirða verður með nútímalegum hætti og gert er ráð fyrir djúpgámum og endurvinnslukerfi.

Tengt efni: