Framkvæmdir við hótel á Hörpureit hefjast í haust

Umhverfi Skipulagsmál

""

Á fjölmiðlafundi sem borgarstjóri boðaði til í dag var kynnt að samningar um hótelbyggingu á Austurbakka eða Hörpureit væru í höfn. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist næsta haust og að fimm stjörnu hótel verði opnað vorið 2018.

Bandaríska fasteignafélagið Carpenter & Company kaupir byggingaréttinn af fyrri eigendum og verður leiðandi fjárfestir í verkefninu, sem jafnframt mun fela í sér fjárfestingartækifæri fyrir innlenda  fjárfesta.  Arionbanki vinnur að skipulagi fjármögnunar verkefnisins og lánsfjármögnun.

Carpenter mun reisa 250 herbergja fimm stjörnu hótel á lóðinni og í framhaldinu fela rekstur þess í hendur leiðandi alþjóðlegs hótelrekstaraðila. Samingar um slíkt eru á lokastigi og mun fljótlega verða tilkynnt um niðurstöðu þess ferlis. Hótelið mun jafnframt hafa að geyma veislu- og fundarsali, fjölda veitingastaða auk heilsulindar. Fullbyggðu er hótelinu ætlað að verða eitt glæsilegasta hótel Reykjavíkur.  

Carpenter  er viðurkenndur rekstraraðili hótelverkefna í Norður Ameríku og hefur náð miklum árangri á því sviði, m.a. með samstarfi við hótelkeðjur eins og St. Regis, Four Seasons, Marriott, Hyatt og Starwood.

Samið hefur verið við íslensku verkfræðistofuna Mannvit og T.ark-arkitekta um hönnun og stjórnun framkvæmda. Þá hafa KPMG á Íslandi og Lögmenn Bárugötu –LMB slf. verið ráðgjafar Carpenter í verkefninu. 

Kolufell  ehf., seljandi byggingaréttarins, mun áfram þróa íbúða- og verslunarbyggð á suðurhluta lóðarinnar.