Frakklandsforseti í Höfða

Stjórnsýsla Umhverfi

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók á móti François Hollande, forseta Frakklands, í Höfða í kvöld. Þar hitti Frakklandsforseti landa sína sem búsettir eru á Íslandi og áhrifafólk sem ræktað hefur samskipti þjóðanna á liðnum árum, t.a.m. Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands og heiðursborgara Reykjavíkur, Elínu Pálmadóttur blaðamann og rithöfund, Gerard Lemarquis kennara og þýðanda, Auði Övu Ólafsdóttur rithöfund, Freystein Sigmundsson jarðfræðing og fleiri.

Sendinefnd François Hollande Frakklandsforseta í Höfða var nokkuð viðamikil en með í för voru Segolene Royal umhverfisráðherra og fulltrúar helstu fjölmiðla í Frakklandi. Móttakan  í Höfða var haldin í samvinnu við franska sendiráðið í Reykjavík.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bauð forsetann velkominn. Hann rakti sögu Höfða og franska tengingu hússins en franski konsúllinn Jean Paul Brillouin byggði húsið árið 1909. Borgarstjóri benti á franskar áletranir í skreytingum innandyra í Höfða. Hann lagði síðan sérstaka áherslu á hlutverk Íslands og Reykjavíkur í baráttunni gegn loftlagsbreytingum og hvatti forsetann til dáða á fyrirhugaðri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál í París í desember. Dagur sagði að Reykjavíkurborg myndi svo sannarlega leggja sitt af mörkum á ráðstefnunni. Reykjavík er núverandi handhafi umhverfis og náttúruverðlauna Norðurlandaráðs en verðlaunin fékk borgin fyrir ríkulegt starf sitt í umhverfismálum. Borgarstjóri kvaðst vonast til að hitta Frakklandsforseta á ráðstefnunni í París þar sem hann verður gestgjafi. Hann sló síðan á létta strengi og bætti því við að Íslendingar hygðust sækja sigur á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu í Frakklandi í sumar.

Dagur rakti heimsókn Francois Mitterand, forseta Frakklands til Íslands árið 1990 en hann heimsótti m.a. Höfða í heimsókn sinni. Eftir þá heimsókn hefði Mitterand haldið á næturklúbb í Reykjavík þar sem hann hlýddi á Sykurmolana spila íslenska rokktónlist. Dagur sagði velkomið að taka Hollande með út á lífið ef hann hefði tíma til að hlusta á reykvískt rokk eða rapp.

Frakklandsforseti steig því næst í ræðustól og þakkaði borgarstjóra fyrir gott boð í Höfða. Hann fór yfir samskipti landanna í gegnum tíðina og ræddi um Jules Verne og skáldsögu hans Ferðina að miðju jarðar. Hann ræddi einnig heimsókn Mitterands í boði Vigdísar Finnbogadóttur forseta og rakti hvernig sú heimsókn hefði orðið til þess að ný frönsk íslensk orðabók var gefin út í samvinnu landanna tveggja. Þá fór hann yfir menningarleg tengsl landanna og mikilvægi norðursins fyrir heimsbyggðina.

Ræðu sinni lauk Hollande með því að segja að það væri af og frá að Ísland gæti farið með sigur af hólmi á EM í knattspyrnu í sumar. Hollande heilsaði síðan upp á gesti, ritaði nafn sitt og nokkur orð í sérstaka gestabók Höfða þar sem fyrir eru nöfn Francois Mitterand, Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev svo einhverjir séu nefndir.

Í gestabókina skrifaði Hollande orðin: „Avec touté notre reconnessance pour l‘example peu vous offrez au monde pour préserver la planéte,“ sem þýðir „Með öllu okkar þakklæti fyrir fordæmið sem þið sýnið heiminum í að varðveita jörðina.“

Frakklandsforseti staldraði við í Höfða í rétt um klukkutíma en hann flýgur af landi brott í nótt en hann var gestur á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu.