Forvarnir ræddar í Sæmundarskóla

Skóli og frístund

""

Borgarstjóri heimsótti Sæmundarskóla á forvarnardegi og ræddi við nemendur um heima og geima. 

Forvarnardagurinn er haldinn í dag og er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum. Þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsótti Sæmundarskóla voru nemendur á unglingastigi að vinna verkefni dagsins, s.s. að ræða gildi þess að vera sem mest með fjölskyldu sinni, stunda íþróttir og draga sem lengst að hefja áfengisneyslu. Borgarstjóri sagði m.a. að unglingar í dag væru þeir efnilegustu i Íslandssögunni, neysla áfengis, tóbaks og fíkniefna meðal íslenskra unglinga hefði minnkað jafnt og þétt síðustu áratugi og væri nú hvað minnst í Evrópu.  

Krakkarnir spjölluðu um margt annað við borgarstjóra, svo sem hvað þau hefðu skemmt sér vel á skólaskemmtun í gær og sýndu þau honum myndband því til sönnunar. Þá ræddi borgarstjóri jarðskjálftavarnir, gildi lesturs og skordýr við nemendur sem voru önnum kafnir í verkefnum þegar hann skoðaði skólann.  

Sæmundarskóla starfar í nýrri og glæsilegri byggingu sem var tekin formlega í notkun haustið 2011. Í skólanum eru gildin gleði, virðing og samvinna höfð að leiðarljósi. 

Skólastjóri er Eygló Friðriksdóttir og Þóra Stephensen er aðstoðarskólastjóri.