Forvarnir eru að hafa það skemmtilegt saman

Skóli og frístund

""

Borgarstjóri átti skemmtilega stund með nemendum í 9. bekk Laugalækjarskóla á forvarnardegi í morgun þar sem lögð var áhersla á að allir hefðu einhverja styrkleika sem þyrfti að rækta.   

Forvarnardagur er í öllum grunnskólum í dag og er hann helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá áfengi og fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. 

Í myndbandi sem sýnt var 9. bekkingum í Laugalækjarskóla í morgun var farið yfir þessi heillaráð; s.s. að hvetja unglinga til að verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldu sinni en rannsóknir sýna að slíkt dregur úr líkum á neyslu. Einnig að stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf og bíða sem lengst með að hefja áfengisneyslu. 

Líflegar umræður sköpuðust þegar borgarstjóri lýsti eftir hugmyndum nemenda um hvað mætti betur fara í því skipulagða tómstunda- og frístundastarfi sem þeim byðist. Í svörum kom m.a. fram  það sjónarmið að öll íþróttaiðkun væri ekki jafn rétthá, s.s. brettaíþróttir, og að það fylgdi því oft mikill aukakostnaður að taka þátt í íþróttastarfi. 

Jón Thoroddsen, heimspekikennari í Laugalækjarskóla, stýrði umræðum og var m.a. komið inn á muninn á neikvæðri umræðu og gildi gagnrýninnar hugsunar sem unglingarnir kunnu ágætlega skil á.
Borgarstjóri hvatti unglinga í Laugalækjarskóla til að minna foreldra sína á gildi samverunnar, það væri oft á tíðum foreldrar sem gæfu sér ekki nógu mikinn tíma í samveru með börnum sínum fremur en að unglingarnir vildu ekki vera með foreldrum sínum.