Forvarnardagur með forseta og borgarstjóra

Skóli og frístund

""

Forvarnardagurinn Tökum þátt var í grunnskólunum í dag þar sem unglingar í 9. bekk ræddu bestu leiðirnar til að forðast vímuefnanotkun. Guðni forseti Íslands heimsótti Hólabrekkuskóla í tilefni dagsins og Dagur borgarstjóri átti góðar stundir með 9. bekkingum í Árbæjarskóla.  

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands fékk höfðinglegar móttökur í Hólabrekkuskóla í morgun, en nemendur í 2. bekk tóku á móti honum með fánaveifum. Forsetinn ávarpaði nemendur 9. bekkjar á sal og ræddi við þá um mikilvægi forvarna og svaraði fjölmörgum spurningum þeirra. Á fundinum tóku einnig til máls Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ.

Hólmfríður G. Guðjónsdóttir, skólastjóri ávarpaði gesti og kynnti góðar niðurstöður í könnun Rannsóknar og greiningar fyrir Hólabrekkuskóla varðandi vímuefnanotkun unglinga í 8. - 10. bekk. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsótti 9. bekkinga í Árbæjarskóla í tilefni forvarnardags og átti gott spjall við þá um forvarnir, skólastarfið og mannlífið í Árbænum. Í skólanum hittust nemendur á sal þar sem þeir fengu m.a. fræðslu um gildi íþrótta í forvarnarstarfi.