Flórgoði verpir við Rauðavatn

Umhverfi

""

Varp flórgoða hefur verið staðfest við Rauðavatn í fyrsta sinn í rúmlega hundrað ár. Sést hefur til pars með unga á síðustu dögum. Vegfarendur við Rauðavatn eru beðnir um að sýna nærgætni ef þeir verða flórgoðans varir og fylgjast með fuglunum úr hæfilegri fjarlægð. Engu að síður er auðvelt og skemmtilegt að fylgjast með þessum fallegu og skemmtilegu fuglum í foreldrahlutverkinu í friðsælu umhverfi Rauðavatns.

Flórgoðar hafa ekki verpt á vötnum í Reykjavík síðan um aldamótin 1900, að því er best vitað. Lengi vel var eina vígi flórgoðans á Innnesjum, Ástjörn í landi Hafnarfjarðar. Á síðustu árum hefur hann þó verpt við Vífilsstaðavatn og Urriðakotsvatn og þar sem stofninn er í vexti á landsvísu kemur ekki á óvart að varp sé hafið á Rauðavatni. Einnig hefur sést til flórgoða við hreiðurgerð á Elliðavatni, en hvort það varp hefur heppnast er enn óstaðfest.

„Ég sá parið í blíðunni í gær og það voru greinilega a.m.k. tveir ungar," segir Snorri Sigurðsson líffræðingur hjá Reykjavíkurborg. „Þeir voru upp á baki annars foreldrisins meðan hitt synti fram og til baka í sífellu með fæðu, og mataði þá. Það var nóg að gera hjá þeim, en þetta virtist ganga vel og það er greinilega næg fæða fyrir þá, því það þurfti ekki að sækja hana langt". Flórgoðar helga sér óðöl á varptíma, og er tilhugalíf þeirra oft tilkomumikið með samhæfðum dansi. Hreiðurgerðin er einstök því þeir gera sér flothreiður. Eftir að ungarnir klekjast út bera þeir þá gjarnan á bakinu. „Það er ótrúlega skemmtilegt að sjá þessa skrautlegu hausa stingast undan vængi foreldrisins þegar fæðan er borin í þá. Sannkallað sjónarspil," segir Snorri.

Snorri segir að það sé einstaklega ánægjulegt að þessi skemmtilegi fugl sé að nema land sem varpfugl á reykvísku vötnunum. „Við höfum fylgst með útbreiðslunni aukast þannig að það hefur verið beðið eftir þessu. Það var frábært að sjá hversu vel tilraunir Garðabæjar við að útbúa flothreiður fyrir flórgoða á Vífilsstaðavatni hafa gengið. Við höfðum hugsað um að gera eitthvað svipað á Elliðavatni eða Rauðavatni, en það verður ekki þörf á slíku, því þeir eru ætla að gera þetta hjálparlaust".

Það er mikilvægt að fólk sem er á ferð um svæðið sýni fuglunum nærgætni. „Það má vel fylgjast með þeim úr fjarlægð ef góður kíkir er með í för. Þeir eru ekki svo styggir. En við viljum auðvitað að þetta gangi vel hjá þeim í sumar og því ber að sýna ítrustu tillitssemi. Sérstaklega viljum við biðja fólk um að vera ekki með lausa hunda nálægt vatninu," segir Snorri.

Ljósmyndir með fréttinni eru frá Fuglavernd og eru ekki teknar við Rauðavatn. Ljósmyndarar eru Jóhann Óli Hilmarsson og Sindri Skúlason.