Fjörugur íbúafundur í Árbæ

Skipulagsmál Mannlíf

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ávarpaði fjölsóttan íbúafund í Árbæjarskóla í gærkvöldi. Fjörugar umræður sköpuðust á fundinum um tækifærin í Árbæ og komu íbúar fram með ýmsar ábendingar um hverfið. Auk borgarstjóra kynntu nokkur ungmenni úr frístundamiðstöðinni Tíunni lýðræðisverkefni sem þau hafa unnið að á undanförnum misserum. Ævar Harðarson kynnti hverfisskipulag í Árbænum og Björn Gíslason formaður Fylkis kynnti hugmyndir félagsins að uppbyggingu.

Borgarstjóri færði skrifstofu sína í félagsmiðstöðina Ársel þessa vikuna sem hluta af því að kynna hverfisskipulag Árbæjar. Á fundinum fór borgarstjóri yfir viðhorf íbúa til þjónustunnar í hverfinu, fyrirhugaðar framkvæmdir og skóla- og frístundasamfélagið í Árbænum í heild sinni.

Íþróttaiðkun barna í Árbæ er afar mikil og fór borgarstjóri yfir það hvernig notkun frístundakortsins hefur aukist en upphæð hennar var hækkuð í 35.000 kr. á hvert barn síðastliðin áramót.

Ævar Harðarson, verkefnisstjóri hverfisskipulags hjá skipulagsfulltrúa kynnti hugmyndir að hverfisskipulagi Árbæjar en Reykjavíkurborg hefur nú opnað nýjan vef um hverfisskipulag í borginni á slóðinni hverfisskipulag.is. Þar er nú hægt að skoða hverfisskipulag Árbæjar og framtíðarsýn fyrir hverfið.

Á næstu mánuðum verður hægt að skoða hverfissskipulag allra hverfa í Reykjavík á vefnum. 

Hægt er að skrá sig á póstlista á vefnum og fylgjast með framvindu skipulagsins. Reykjavíkurborg hvetur íbúa til að láta sig hverfisskipulagið varða og koma með hugmyndir og ábendingar sem geta komið að notum í skipulagsvinnunni.

Bæklingum um hverfisskipulagið verður dreift inn á heimili í öllum hverfum borgarinnar á næstu mánuðum.

Þess má geta að íbúar í Ártúnsholti, Árbæ, Selási og Norðlingaholti geta komið hugmyndum og athugasemdum um hverfisskipulag Árbæjar á framfæri á næstu dögum en fulltrúar frá hverfisskipulagi verða í þjónustumiðstöð  Árbæjar í Hraunbæ frá kl. 16-18, fimmtudaginn 26. mars og í Bónus, Hraunbæ 121 á sama tíma föstudaginn 27. mars.