Fjölsóttur kynningarfundur um nýjar íbúðir

Framkvæmdir Skipulagsmál

""

Unnið er við nýjar íbúðir um alla borg og í dag eru um 3.100 íbúðir á framkvæmdastigi.  Þá eru 4.300 íbúðir þegar deiliskipulagðar. Einnig eru staðfest áform upp á 4.100 íbúðir í samvinnu við húsnæðisfélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni i því skyni að fjölga íbúðum á viðráðanlegu verði. Þetta kom fram á árlegum fundi um húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík sem haldinn var í ráðhúsinu í morgun.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór yfir helstu svæðin sem eru í uppbyggingu, samstarfið við húsnæðisfélögin og framtíðarsýn húsnæðismála í Reykjavík. „Uppbyggingin gengur mjög hratt núna. Við erum einfaldlega stödd á mesta uppbyggingarskeiði í húsnæðismálum í sögu borgarinnar," sagði hann.

Þá sagði Dagur mikilvægt að sveitarfélögin láti til sín taka í húsnæðismálum, ekki bara með sölu byggingarréttar eða úthlutun lóða heldur líka með því að tryggja blöndun íbúabyggðar, tryggja íbúðir á viðráðanlegu verði og fjölgun félagslegra íbúða. „Reykjavík er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem ætlar að fjölga félagslegum íbúðum svo einhverju nemi – og við eigum hlutfallslega langflestar íbúðir allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og eftir að áformin okkar verða að veruleika munum við eiga meira en 5% allra íbúða í Reykjavík fyrir þá sem standa höllum fæti. Ef önnur sveitarfélög myndu gera sambærilegt átak, þá væru biðlistar úr sögunni, segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Sérstök áhersla verður einnig lögð á fyrstu kaupendur og nýjar leiðir í húsnæðisuppbyggingu. Verður horft til nýrra svæða í Gufunesi, Ártúnshöfða og Skerjafjarðar og auglýst eftir samstarfsaðilum sem vilja koma að slíkri uppbyggingu og geta teflt fram áhugaverðum lausnum.
Þá var tilkynnt um að úthlutun lóða gengi einnig vel í Reykjavík. Í borgarráði í gær var úthlutað lóðum fyrir um 530 íbúðir hefur þá í heild verið úthlutað lóðum fyrir 1.435 íbúðir í ár.

Eins og áður segir eru 3.100 íbúðir í byggingu og eru þær á eftirtöldum svæðum:
 

  • Efstaleiti: 360 íbúðir
  • Hlíðarendi : 780 íbúðir
  • Smiðjuholt: 203 íbúðir
  • Bryggjuhverfi II - 280 íbúðir
  • Grandavegur: 142 íbúðir
  • Hljómalindarreitur: 35 íbúðir
  • Hverfisgata 92-96: 60 íbúðir
  • Hafnartorg-Austurhöfn:  178 íbúðir
  • Brynjureitur: 77 íbúðir
  • Frakkastígsreitur: 68 íbúðir
  • Tryggvagata 13: 40 íbúðir
  • Mánatún: 44 íbúðir
  • Borgartún 28: 21 íbúð
  • Nýlendurreitur: 20 íbúðir
  • Suður-Mjódd: 130 íbúðir
  • Reynisvatnsás: 50 íbúðir
  • Höfðatorg I: 94 íbúðir
  • Mörkin: 74 íbúðir
  • Barónsreitur-Hverfisgata 85-93:  70 íbúðir
  • Sogavegur 73-77: 45 íbúðir
  • Sigtúnsreitur: 108 íbúðir
  • Keilugrandi 1: 78 íbúðir
  • Skógarvegur: 20 íbúðir
  • Úlfarsárdalur – núverandi hverfi: 100 íbúðir
  • Laugavegur 59: 11 íbúðir
  • Hverfisgata 61 12 íbúðir

Alls: 3.100 íbúðir

Streymi af fundinum, kynningarglærur og fleira tengt efni er aðgengilegt á vefsíðunni reykjavik.is/ibudir