Fjölsóttur kynningarfundur um Nýja Skerjafjörð

Samgöngur Umhverfi

""

Kynningarfundur um niðurstöður í hugmyndaleit fyrir rammaskipulag Nýja Skerjafjarðar var haldinn í Tjarnarsal Ráðhússins fimmtudaginn 2. nóvember.  

Reykjavíkurborg stóð fyrir lokaðri hugmyndaleit í sumar um framtíðaruppbyggingu á þróunarreit Þ5 Nýja Skerjafirði, sem er skilgreindur í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Í aðalskipulaginu hefur verið gert ráð fyrir að á svæðinu muni rísa íbúðir og er gerð rammaskipulags fyrsta skrefið í átt að því að framfylgja þeirri stefnu. Þróunarreiturinn liggur að núverandi byggð í Skerjafirði og afmarkast af götunni Skeljanesi til vesturs og af öryggissvæði flugbrauta til norðurs og austurs. Svæðið hallar til suðurs í átt að Fossvogi og liggur vel við sól og vindáttum með stórkostlegu útsýni að sjó. Áhersla er lögð á vistvæna byggð sem tekur tillit til náttúru og nærliggjandi byggðar.

Eftirfarandi arkitektastofur voru valdar til þátttöku í hugmyndaleitinni: Alta, ASK arkitektar, KRADS arkitektar, Landmótun og Plús arkitektar. Lögð var áhersla á að hver stofa myndaði þverfaglegt teymi með samstarfsaðilum. Reykjavíkurborg áskildi sér rétt til að nýta hverja tillögu að hluta til eða í heild og því mætti gera ráð fyrir að hægt væri að nota þætti úr öðrum tillögum við áframhaldandi vinnu. Tillögurnar fimm þóttu allar metnaðarfullar og mjög frambærilegar og í flestum þeirra eru hugmyndir sem vert er að skoða nánar í framhaldsvinnu.

Tillaga ASK arkitekta, sem unnin var í samstarfi við Landslag og Eflu, hefur verið valin vinningstillaga í hugmyndaleitinni og munu þeir ráðgjafar fullvinna hana enn frekar í átt að rammaskipulagi. Tillagan þótti skara fram úr vegna aðlaðandi byggðarmynsturs með fjölbreyttar húsagerðir og grænt net opinna svæða og gönguleiðir í gegnum inngarða. Tillagan skar sig frá öðrum tillögum að því leyti að hún sýnir mun fjölbreyttari byggð sem sækir yfirbragð til hins sjálfbæra þorps, á meðan aðrar tillögur fylgdu stífara formi. Eins og segir í tillögunni sjálfri: „Rammaskipulag Graeme Massie hefur verið leiðarljós skipulags í Vatnsmýrinni um nokkurt skeið. Það er að nokkru okkar fyrirmynd, en við viljum brjóta það upp og hverfa frá hornréttum samgönguæðum og strangri randbyggð. Við viljum mýkri form, fjölbreyttari byggð og mildara yfirbragð.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ávarpaði fundinn í upphafi og gerði grein fyrir sögunni á bak við þennan reit. Einnig kom fram að Félagsstofnun stúdenta hefði áhuga að eiga hlut í þessu svæði. Búast má við að þetta svæði verði bæði fjölbreytt og blandað, m.a. kostur fyrir þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn.  Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs fór yfir forsendur, aðferðafræði og næstu skref. Páll Gunnlaugsson arkitekt hjá ASK arkitektum kynnti vinningstillöguna og var gerður góður rómur af henni. Þorsteinn R. Hermannsson samgöngustjóri fór yfir samgöngumálin á svæðinu og umferð en hjá honum kom m.a. fram að ný byggð og núverandi byggð verður vel tengd í allar áttir með almenningssamgöngum, göngu- og hjólastígum.  Gunnar Hersveinn var fundarstjóri og Halldóra Hrólfsdóttir verkefnastjóri hjá skipuluagsfulltrúa var ritari

Eftir erindin var fundargestum boðið að skoða allar tillögur sem bárust í hugmyndaleitinni. Fundurinn var  sendur út á facebooksíðu Reykjavíkurborgar og hann má nú sjá á svæðinu netsamfelag.is .

Tenglar:

Fundargerð 3. nóvember 2017

Kynningarglærur ASK

Myndasyrpa PDF

Frekari upplýsingar

Netfang: skerjafjordur@reykjavik.is