Fjölskylduferð í fjöruna á sunnudaginn

Umhverfi

""

Reykjavíkurborg býður í fjöruferð sunnudaginn 13. júlí en hún er þáttur í fræðsluátaki um líffræðilega fjölbreytni í Reykjavík. Varðveisla líffræðilegrar fjölbreytni í borgarlandinu er markmið í umhverfis- og auðlindastefnu borgarinnar. Farið verður í fjöruna við Skerjafjörðinn og hist við Sörlaskjól í Vesturbænum kl 13. Allir eru velkomnir.

Strandlengja Reykjavíkur er fjölbreytt að gerð og þar eru margvísleg búsvæði - stórgrýttar þangfjörur, sand- og malarfjörur, skjólsælar leirur og sjávarfitjar. Lífríki fjörunnar er afar fjölbreytt. Þar vaxa margs konar þörungategundir, brún-, græn- og rauðþörungar. Mest er þörungafjölbreytnin í grýttu fjörunum. Áhugaverðar plöntur vaxa ofarlega í fjörunni t.d. blálilja og fjörukál. Dýralífið er ekki síður fjölskrúðugt, sérstaklega fjölbreytt fána hryggleysingja - kuðungar og skeljar, krabbadýr, burstaormar, skrápdýr, hveldýr, möttuldýr, svampar o.fl. Fiskar finnast oft í fjöruborðinu, selir sjást oft á sundi og síðast en ekki síst er fuglalíf fjörunnar afar auðugt enda fæðuframboð fyrir fugla mikið.

„Fátt er skemmtilegra en að fara á háfjöru, velta við steinum og róta í þangi. Það hreinlega iðar allt og spriklar af lífi ekki síst núna á sumrin,“ segir Snorri Sigurðsson sem hefur umsjón með fræðslunni fyrir hönd umhverfis- og skipulagssvið. Fræðsluviðburðurinn á sunnudaginn ber heitið FJARAN IÐAR AF LÍFI og þar verða gestir hvattir til að taka þátt í leit og söfnun á lífverum, í bakka og fötur, sem síðan verða skoðaðar í návígi og greindar. „Gestir eru einnig hvattir til að taka með sér fötur og önnur tæki til söfnunar en mikilvægt er að meðhöndla allar lífverur, sérstaklega dýr, varlega og af virðingu og skila þeim aftur í heilu lagi í fjöruna.“ segir Snorri og að kjörið sé fyrir fjölskyldur með börn að mæta í fræðsluna. 

Reykjavík-iðandi af lífi - www.reykjavik.is/idandi

Facebook www.facebook.com/reykjavikidandi fyrir frekari upplýsingar um fræðsludagskrá sumarsins 2014.